Íbúar í nágrenni Fossvogskirkjugarðs hafa orðið fyrir óþægindum vegna líkbrennslunnar sem þar er starfrækt. Fyrir kemur að sót berist inn um glugga og setjist í gluggakistur. Nú nýlega hefur ástandið verið mjög slæmt og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi ábendingu til kirkjugarðanna vegna málsins.
Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, segist hafa fullan skilning á þeim óþægindum sem öskufall frá líkbrennslunni valdi íbúum í hverfinu.
„Það sem gerðist í síðustu viku var að við þurftum að notast við varaofn sem er ekki eins góður og aðalofninn. Það er orðið mjög brýnt að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að ný bálstofa með fullnægjandi mengunarvörnum verði byggð.“
Hann segir að það hafi staðið til í 20 ár að líkbrennslan færi í Gufunes og búið sé að byggja starfsmannaaðstöðu þar.
„Í raun má segja að bygging bálstofu í Hallsholti í Gufuneskirkjugarði sé þegar hafin. Það er kominn púði undir bygginguna en Kirkjugarðar Reykjavíkur leggjast ekki í frekari fjárfestingu nema rekstur sé tryggður með einhverjum hætti og afstaða ráðuneytisins liggi fyrir.“
Ingvar segir að ofnarnir í Fossvogi séu frá árinu 1948 og að ekki hafi fengist nægt fjármagn í rekstur bálstofunnar þótt aukning hafi orðið í líkbrennslu sem nálgast 50% á landsvísu en sé 60% á höfuðborgarsvæðinu. Kirkjugarðarnir fái aðeins fasta fjárhæð á ári til rekstursins og fjárveiting á milli ára nú sé svipuð eða minni en á árinu á undan, þrátt fyrir fjölgun.
Ingvar segir Kirkjugarðaráð hafa lagt til að stofnuð yrði sjálfseignarstofnun um verkefnið, sem myndi sjá um rekstur og fjármögnun ef ákveðnar forsendur lægju fyrir frá ríkinu. Forsendur sem tryggðu bæði að hægt væri að ráðast í verkefnið og reka síðan þessa þjónustu. Settar hafa verið fram hugmyndir þar sem ekki er gert ráð fyrir stofnfjárframlagi frá hinu opinbera.
Spurður hvað nýr líkbrennsluofn kosti segir Ingvar að góður ofn geti kostað í kringum 300 milljónir en eðlilegt sé að gera ráð fyrir tveimur í nýju húsi, þannig að seinna væri hægt að bæta við öðrum ofni.
Morgunblaðið greindi frá því í nóvember sl. að heilbrigðiseftirlitið hefði ákveðið að endurskoða starfsleyfi bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur.
Ásgeir Björnsson, heilbrigðis- og mengunarvarnarfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að endurnýjun starfsleyfis fyrir bálstofuna hafi dregist, en nú standi til að auglýsa starfsleyfisskilyrðin.
„Það er verið að endurskoða starfsleyfið sem nú verður auglýst. Á því stigi gefst hagsmunaaðilum kostur á að gera athugasemdir.“
Spurður hvort til greina komi að endurnýja ekki starfsleyfið segist Ásgeir ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu en það muni koma í ljós við auglýsingu þar sem fram koma starfsleyfisskilyrði.
„Núverandi ofnar eru ekki með hreinsibúnað eins og tíðkast í nágrannalöndum. Bálfarir hafa aukist mjög og við höfum gert athugasemdir við þessa ofna.“
Ásgeir gerir ráð fyrir því að drög að starfsleyfisskilyrðum verði auglýst í maí og júní og verði það opið almenningi. Auglýsingatíminn er 4 vikur.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.