Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novators á árunum 2010–2020, vill ekki tjá sig um fréttir þess efnis að Björgólfur Þór Björgólfsson, vinnuveitandi hennar og eigandi Novators, hafi varið tugum milljóna í þjónustu öryggisfyrirtækisins PPP sem njósnaði um almenna borgara fyrir hönd Björgólfs.
„Ég hef ekkert um þetta mál að segja. Ég sá þetta í Kveik í gær eins og aðrir landsmenn en hef ekkert meira um þetta að segja. Ég er hætt að vinna þarna og tjái mig ekkert um þetta,“ segir Ragnhildur spurð um hennar sýn á þær upplýsingar sem komu fram í þættinum.
Björgólfur er búsettur í London en ekki hefur tekist að ná á hann til að tjá sig um fregnir af málinu.
Þá hefur Róbert Wessman, sem var einn þeirra sem voru eltir af þeim Jóni Óttari Ólafssyni og Guðmundi Hauki Guðmundssyni, ekki viljað tjá sig um málið við mbl.is.