Vopnaði maðurinn sem handtekinn var í miðbænum um fimmtudagsmorgun er sagður hafa frelsissvipt ferðamann á heimili sínu við Hverfisgötu.
Ríkisútvarpið greinir frá og segir að maðurinn, sem sé um fertugt, hafi verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald „á grundvelli almannahagsmuna“ í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
mbl.is greindi frá því í dag að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði verið kölluð út í morgun á Hverfisgötu vegna manns sem var sagður vopnaður skotvopni í íbúðarhúsnæði.
Engu skoti var hleypt af, að sögn lögreglu, en maðurinn var handtekinn. Hverfisgötu, Lindargötu, Vitastíg og Klapparstíg var lokað á meðan aðgerðum stóð.
Ríkismiðillinn segir heimildir sínar herma að maðurinn hafi haldið erlendum ferðamanni í gíslingu og grunur leikur á að maðurinn hafi verið vopnaður byssu.