„Dagurinn í dag byrjar með vestlægri átt, 5-13 m/s. Skýjað og dálítil súld eða rigning af og til, en bjart að mestu suðaustan til.“
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Eftir hádegi snýst hins vegar í norðlæga átt og dregur hægt úr vindi. Léttir til á vestan- og sunnanverðu landinu, en áfram verður dálítil væta fyrir norðan og austan.
Hiti verður á bilinu 8 til 13 stig, en aðeins svalara við norðurströndina.
Á morgun verður hæg breytileg átt og víða bjart og sólríkt veður, en skýjað og sums staðar lítilsháttar rigning á suðaustanverðu landinu.
Hiti verður á bilinu 9 til 15 stig yfir daginn.