Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu (NEL) hefur tekið ákvörðun um að hátterni lögreglumanns, sem á sama tíma starfaði sem lögmaður og lögreglumaður, sé ámælisvert. Hátterni lögreglumannsins snýr að slysamáli þar sem skjólstæðingur hans sóttist eftir bótum hjá tryggingarfélagi.
Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2022 þegar lögreglumaðurinn starfaði hjá ónefndu lögregluembætti. Slys kom upp í embættinu og skráði hann atvikið í kerfi lögreglunnar.
Síðar hóf þessi sami lögreglumaður störf hjá ríkislögreglustjóra. Í maí árið 2024 skilaði hann skýrslu um atvikið sem gerðist tveimur árum áður. Sú skýrsla var lögð fram sem sönnunargagn í máli tjónþola í slysinu. Lögreglumaðurinn sinnti lögmennsku í aukastarfi og hafði tekið við hagsmunagæslu fyrir manneskjuna sem lenti í slysinu á lögmannsstofu sem hann starfaði hjá.
Fulltrúar tryggingafélagsins veittu því athygli við meðferð tjónamálsins að lögmaður sem sinnti hagsmunagæslu fyrir tjónþola var sami maður og hafði skilað inn skýrslunni í maí 2024.
Sendi tryggingafélagið erindi til NEL í framhaldinu og gerði einnig athugasemd við það að lögreglumaðurinn hefði skrifað skýrsluna sem starfsmaður ríkislögreglustjóra en alla jafna er slíkt á herðum lögregluembættanna.
Lögreglumaðurinn fór ekki með umboð vegna slysamálsins en kom þó fram fyrir hönd þeirra lögmanna sem fóru með umboð vegna málsins.
NEL komst að þeirri niðurstöðu að lögreglumaðurinn hefði ekki sinnt skyldum sínum um að tilkynna um þá hagsmunaárekstra sem voru í málinu.
Sendi nefndin málið því til embættis ríkislögreglustjóra til frekari meðferðar. Ríkislögreglustjóri getur eftir atvikum veitt tiltal, áminningu eða vikið starfsmanni úr starfi kjósi embættið að gera svo.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.