Víða má gera ráð fyrir sólríku veðri og hægum vindi, en suðaustantil á landinu verður skýjað og lítilsháttar væta á stöku stað.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að hæðarhryggur liggi yfir landinu í dag.
Yfirleitt verður fremur hlýtt að deginum, hiti víða 9 til 14 stig, en heldur svalara austast á landinu.
Í kvöld snýst í sunnanátt og þá þykknar smám saman upp vestanlands.
Á morgun er svo útlit fyrir sunnan og suðvestan stinningsgolu eða strekking og dálitla vætu með köflum, en að mestu bjart eystra og þar hlýnar í veðri.