Metþátttaka var í hlaupinu Puffin Run í Vestmannaeyjum í gær þegar 1.334 keppendur hlupu 20 kílómetra í sól og blíðu. Að því er fram kemur í tilkynningu markaði þetta fjölmennasta utanvegahlaup sem haldið hefur verið á Íslandi.
Jákvæðni og gleði þátttakenda var greinileg er þeir tókust á við erfiða en fallega leiðina. Eftir hlaupið söfnuðust þeir allir saman á Vigtartorgi og deildu reynslusögum.
Þetta er áttunda árið sem hlaupið fer fram og lýsa aðstandendur þess mjög miklu þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt og þeirra sem störfuðu við hlaupið.
Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki fjórða árið í röð á tímanum 1:27:52. Það er sami tími og hún hljóp á í fyrra. Í öðru sæti var Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir á 1:33:28 og í þriðja sæti var Steinunn Lilja Pétursdóttir á 1:33:36.
Hlynur Andrésson sigraði í karlaflokki á 1:14:56 og setti brautarmet. Hlynur, sem er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, var að keppa í hlaupinu í fyrsta sinn en hann er einn besti götuhlaupari landsins.
Tveir fyrrverandi sigurvegarar í hlaupinu voru í næstu tveimur sætum í karlaflokki. Þorsteinn Roy Jóhannsson, sem sigraði árið 2021, kom annar í mark á 1:15:56 og sigurvegari síðustu þriggja ára, Arnar Pétursson, var þriðji á 1:16:46.