Dæmi eru um að viðskiptavinir sem nýta sér langtímabílastæði Isavia á Keflavíkurflugvelli þurfi að greiða umtalsvert hærra verð en þeim var upphaflega boðið ef kemur til smávægilegra breytinga á bílastæðapöntun.
Lesandi blaðsins hafði samband og sagði farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við ríkisfyrirtækið. Tiltók hann tvö dæmi þar sem hann þurfti að greiða hærra verð en upp var lagt með. Viðkomandi hafði pantað sér stæði með góðum fyrirvara enda bjóðast þá betri kjör en ella. Þegar kom að brottför í fyrra skiptið taldi hann sig hafa skammtað sér of stuttan tíma og vildi lengja lítillega í. Kveðst hann hafa bölvað sjálfum sér fyrir að hafa sýnt af sér þennan heiðarleika þegar Isavia rukkaði hann um nokkur þúsund krónur fyrir, ekki krónur eða hundraðkalla eins og hann bjóst við. Í seinna tilvikinu seinkaði flugfélag sem hann flaug með heimflugi um einn dag. Þá þurfti hann að sæta sömu afarkostum eins og hann orðar það.
Maðurinn sendi almenna fyrirspurn á Isavia og fékk að eigin sögn í svarinu staðfestan grun sinn um að þessir „ósanngjörnu viðskiptahættir“ væru þar við lýði.
Í svari Isavia við fyrirspurninni sagði að kerfi fyrirtækisins væri hannað með þeim hætti að þegar bókun er breytt sé gamla bókunin endurgreidd og greitt sé fyrir nýja bókun eins og verið sé að bóka á þeim tíma sem breytingin er gerð. Fyrir vikið missi viðskiptavinir þann ávinning sem hafi hlotist af fyrirhyggjunni að bóka stæði snemma.
Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir að sér þyki miður að heyra af því að viðkomandi farþegi hafi ekki fengið viðunandi úrlausn mála þegar hann leitaði til fyrirtækisins og hvetur hann til að setja sig í samband við bílastæðaþjónustuna á Keflavíkurflugvelli.
„Fyrir tæpum tveimur árum innleiddum við nýtt bílastæðakerfi. Við höfum síðan þá fengið ábendingar um aðstæður sem þessar frá viðskiptavinum okkar sem við teljum vera réttmætar ábendingar. Þess vegna erum við að uppfæra bókunarkerfi okkar þannig að viðskiptavinir geti breytt bókunum sjálfir í gegnum netið. Það er ekki hægt eins og stendur. Á meðan þeirri uppfærslu er ekki lokið þá ráðleggjum við fólki, sem kemur seinna heim úr ferðalagi en áætlað var, að aka bíl sínum út af stæðinu og gera síðan upp aukakostnaðinn á Autopay-vefnum sem fyrst við heimkomu. Á vef Autopay er bílnúmeri bara flett upp til að geta borgað viðbótarkostnaðinn,“ segir Guðjón og bendir á að allar upplýsingar um bílastæðaþjónustu Keflavíkurflugvallar megi finna á kefparking.is.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.