„Þetta er í sautjánda sinn sem við höldum Fanfest-hátíðina á Íslandi og þetta tókst virkilega vel um helgina,“ segir Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP, um hina næstum því árlegu ráðstefnu og hátíð EVE Fanfest sem CCP hélt í fyrsta skipti árið 2004 og hefur haldið árlega síðan með nokkrum undantekningum, en eins og víða annars staðar setti heimsfaraldurinn þar nokkurt strik í reikninginn.
Segir Eldar hátt í 2.000 gesti allrar síðustu viku hafa nýtt tíma sinn vel, sótt viðburði hátíðarinnar frá fimmtudegi og þar til í dag stíft, en einnig nýtt sér tilboð fyrirtækisins um milligöngu við skoðunarferðir um land elds og ísa sem vel voru sóttar. „Sömuleiðis tókust allar kynningar CCP mjög vel, við vorum að kynna nýjungar fyrir okkar leiki og vorum þess vegna með fjölda erlendra blaðamanna á landinu sem veittu nýjungunum mikla athygli,“ segir vörumerkjastjórinn.
Uppselt var á hátíðina og segir Eldar fjölda gesta hafa verið svipaðan og 2023 þegar hátíðin var síðast haldin „en hátíðin hefur verið að stækka og eflast síðustu ár. Ári eftir að EVE Online kom út, 2004, var þetta nú bara ósköp lítil og krúttleg hátíð, en síðan hefur hún vaxið ört og nú er búið að staðfesta næstu hátíð eftir ár, 14. til 16. maí. Við finnum vel fyrir spurn eftir því að halda hana árlega og munum því gera það og festa okkur í sessi á vorin.
Hátíðin hefur frá upphafi verið eyrnamerkt ykkar helstu vöru, EVE Online, kynnið þið engu að síður alla framleiðslu ykkar á hátíðinni?
„Já, við kynnum alla okkar framleiðslu á hátíðinni, en hins vegar er EVE Online okkar stærsti leikur og flestir gestir sem koma á hátíðina eru að spila hann,“ svarar Eldar og kveður auk þess aðspurður yfirleitt bryddað upp á einhverju nýju hvert ár. „Við höfum þróað hátíðina og breytt henni eftir okkar þörfum og eins væntingum þeirra sem hingað koma. Það skiptir okkur miklu máli að þeir sem koma hingað séu sáttir, gestir koma frá yfir 50 þjóðlöndum og margir þeirra fara um mjög langan veg til að komast til Íslands,ׅ“ segir hann.
Er þetta mikið til sami gestahópurinn sem kemur ár eftir ár eða verðið þið frekar varir við að endurnýjun gesta sé ríkjandi?
„Það kom okkur á óvart að samkvæmt könnun sem framkvæmd er á hverri hátíð er yfir helmingur sem er að koma í fyrsta sinn. Hinn helmingurinn er allt frá því að koma í annað sinn upp í að koma í tíunda sinn þannig að sumir koma ár eftir ár, en við sáum það bæði síðast og 2022 að yfir helmingur þeirra sem komu var að koma í fyrsta sinn,“ svarar Eldar og bætir því við að hátíðin dragi þar með alltaf að sér nýjan hóp á meðan sumir séu fastagestir. Hann er spurður út í hvort eitthvað merkilegt sé í burðarliðnum hjá CCP.
Svara Eldar því til að á nýafstaðinni hátíð hafi tveir nýir leikir fyrirtækisins verið kynntir til sögunnar, EVE Frontier og EVE Vanguard, „það er of snemmt að tala um útgáfuáætlanir um þá, en við vorum að kynna báða leikina fyrir blaðamönnum og ráðstefnugestum og uppskárum mjög góð viðbrögð vegna þeirra,“ segir Eldar Ástþórsson vörumerkjastjóri CCP að lokum um sautjándu EVE Fanfest-hátíðina sem lýkur í dag eftir vel heppnaða viku í skoðunarferðum um landið annars vegar og fyrirlestrum og kynningum á straumum og stefnum í einu framúrstefnulegasta verkefni á sviði stafrænnar afþreyingar síðan tölvuleikir hófu göngu sína í heimi hér.