Gunnlaugur Claessen fv. hæstaréttardómari lést 1. maí síðastliðinn, á 79. aldursári.
Gunnlaugur fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1946. Foreldrar hans voru Guðrún Arnbjarnardóttir símvörður og Haukur Arentsson Claessen varaflugmálastjóri.
Gunnlaugur varð stúdent frá MR 1966 og tók lögfræðipróf frá HÍ 1972. Hann stundaði framhaldsnám í kröfurétti við Oslóarháskóla veturinn 1972-1973, varð héraðsdómslögmaður 1974 og hæstaréttarlögmaður 1980.
Gunnlaugur starfaði sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu 1972, síðan fulltrúi í fjármálaráðuneytinu 1973 til 1975 og loks deildarstjóri þar til 1984. Hann var skipaður ríkislögmaður 1984 fyrstur manna og gegndi því embætti í 10 ár, uns hann var skipaður dómari við Hæstarétt Íslands árið 1994. Hann gegndi dómarastarfinu við Hæstarétt til hausts 2013 er hann hætti sökum aldurs. Gunnlaugur var varaforseti Hæstaréttar 2004-2005 og forseti 2006-2007.
Gunnlaugur var formaður Orators 1970-1971 og átti sæti í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, á árum sínum í HÍ. Hann sat í ýmsum öðrum stjórnum, m.a. í stjórnum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Samtaka um vestræna samvinnu, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Slippstöðvarinnar á Akureyri, og var formaður Lögfræðingafélags Íslands um skeið. Hann átti sæti í réttarfarsnefnd og var formaður nefndar um dómarastörf, samkvæmt lögum um dómstóla. Þá var Gunnlaugur formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Minja frá 2000 til 2022.
Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs er Guðrún Sveinbjörnsdóttir sjúkraliði, f. 1955. Sonur þeirra er Sveinbjörn, f. 1986, lögfræðingur, og dóttir Guðrúnar er Erna Margrét Þórðardóttir, f. 1980, einnig lögfræðingur. Börn Gunnlaugs með fyrri maka, Helgu Hjálmtýsdóttur, f. 1949, eru Þórdís, f. 1974, grafískur hönnuður, og Haukur, f. 1977, stjórnmálafræðingur og kennari. Barnabörnin eru átta talsins.