Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir fregnir af hagræðingu í borginni stórlega ýktar. Einn borgarstarfsmaður hafi verið ráðinn á síðasta ári fyrir hverja þrjá íbúa sem fluttu til borgarinnar.
„Yfirlýsingar um hagræðingar í rekstri borgarinnar eru marklausar. Hér hefur engu verið hagrætt nema sannleikanum. Viðsnúning í rekstri má einungis rekja til aukinnar skattheimtu, eignasölu og bókhaldstækni. Hann má að engu leyti rekja til hagræðinga sem hreyfa nálina í rekstri borgarinnar enda veruleikinn sá að útgjöld halda áfram að vaxa og starfsmönnum að fjölga á áður óþekktum hraða“, sagði Hildur í oddvitaumræðum í borgarstjórn í dag um ársreikning Reykjavíkurborgar 2024.
Í umræðum rakti Hildur hvernig starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað í A-hlutanum milli ára, en fjöldi þeirra fór úr 10.681 árið 2023 upp í 11.576 árið 2024.
„Starfsmönnum fjölgaði hér um 895 talsins, eða um 8,4%, yfir 12 mánaða tímabil. Það fyrirfinnst ekki skýrari birtingarmynd þeirrar óstjórnar sem ríkir í borgarkerfinu. Yfir sama tímabil fjölgaði íbúum borgarinnar aðeins um 2.519 eða 1,9%“, sagði Hildur.
Hildur rifjaði upp varnaðarorð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem fylgdu fjárhagsáætlun ársins 2023 en þar sagði skrifstofan starfsmönnum borgarinnar hafa fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun yfir fimm ára tímabil, eða sem samsvaraði 25% meðan íbúum fjölgaði um aðeins 10%.
„Ofvöxtur borgarkerfisins hefur verið viðvarandi síðustu árin og virðist ekkert lát á. Raunveruleikinn er sá að árið 2024 var ráðinn einn borgarstarfsmaður fyrir hverja þrá einstaklinga sem fluttu til borgarinnar. Það sér hver maður að þetta gengur ekki svona til lengdar“.