Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkið hafi greitt margar milljónir til að verja ólögmætar ákvarðanir sem tengjast rekstri ÁTVR.
Þetta kom fram undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún greindi frá því á að hún hefði nýverið lagt fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um kostnað ríkisins og ÁTVR vegna dómsmála sem fyrirtækið hafi höfðað gegn heildsölum.
„Svörin sem ég fékk eru bæði áhugaverð en einnig verulegt áhyggjuefni. Í ljós kemur að ríkið hefur greitt margar milljónir í málskostnað, 4 milljónir í einu máli, 3,5 milljónir í öðru, auk dýrrar lögfræðiaðstoðar. Og fyrir hvað? Fyrir að verja ákvarðanir sem hafa verið dæmdar ólögmætar,“ segir Bryndís.
„Það sem er alvarlegra en fjárhagslegur kostnaður er að ÁTVR hefur ekki enn brugðist við niðurstöðu dómstóla. Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi fellt úr gildi synjun stofnunarinnar á vörum tiltekins innflytjenda heldur ÁTVR áfram að neita að taka vörurnar til sölu. Þetta er forkastanlegt. Við búum í réttarríki og stofnanir ríkisins eiga ekki að velja sér hvaða dóma þær virða,“ segir hún enn fremur.
Hún benti á að dómar Hæstaréttar séu ekki tillögur heldur séu þeir bindandi.
„En hver ber ábyrgð þegar opinber stofnun hagar sér svona? Ráðuneytið virðist þvo hendur sínar af málinu. En ef ekki ráðherra, hver þá? Er það virkilega þannig að ríkisstofnun geti farið sínu fram í trássi við lög og dóma og án þess að nokkur axli ábyrgð? Við verðum að velta því alvarlega fyrir okkur hvort þetta sé kerfisbundið vandamál. Er það einokunarstaða ÁTVR sem býr til þessa ábyrgðarlausu menningu eða er það ohf.-fyrirkomulagið sem gerir það að verkum að stofnanir telja sig ekki svara neinum nema sjálfum sér,“ spyr Bryndís.
Hún segir að það sé löngu kominn tími til að við þingið ræði ábyrgð ríkisstofnana, stöðu ríkisfyrirtækja og hvort ohf.-formið, sem virðist hylma yfir ábyrgð og gagnsæi, sé í raun heppilegt form fyrir fyrirtæki sem hafi einokun á markaði.
„Þetta er prófraun á virðingu okkar fyrir lögum og stjórnarskrárvörðum réttindum fyrirtækja og einstaklinga. Við eigum ekki að horfa á aðgerðarlaus eins og hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra virðist ætla að gera. Við eigum að laga það sem hefur misfarist.“