Heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna verður sett í 23 sinn með athöfn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á morgun, 7. maí. Verkefnið, sem er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, stendur yfir í þrjár vikur
María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðakona er ein þeirra sem flytur ávarp á setningarathöfninni á morgun en hún hefur stundað hjólreiðar frá árinu 2010. María, sem hefur bæði keppt í hjólreiðum og frætt fólk um íþróttina, segir í samtali við mbl.is að átakið snúist ekki eingöngu um að fara út að hjóla heldur líka að labba eða nota aðra vistvæna ferðamáta.
Fyrir suma hentar það einfaldlega ekki að hjóla en markmið átaksins sé að velja heilsusamlegan, umhverfisvænan og hagkvæman ferðamáta, segir María.
Að sögn Maríu hefur átakið gengið vel í gegnum tíðina og margir vinnustaðir gefi starfsfólki gott rými í daglegum störfum til að taka þátt. Hún segir að flest fyrirtæki séu opin fyrir tilbreytingu í daglega rútínu sérstaklega þar sem þetta hefur góð áhrif á heilsu starfsfólks.
Hjólað í vinnuna ýtir undir góðan móral á vinnustöðum, segir María, og oft verður til skemmtileg samkeppni á vinnustöðum sem leiði til þess að fólk haldi áfram að velja heilsusamlegri ferðamáta að átaki loknu.
Í fréttatilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að efnt sé til vinnustaðakeppni en þar er fyrst og fremst keppt um flesta þátttökudaga hlutfallslega miða við heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum. ”Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða. Að auki er kílómetrakeppni þar sem keppt er annars vegar á milli liða um heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miða við fjölda liðsmanna í liði,” segir í tilkynningu.
Allar upplýsingar um átakið má finna á heimasíðunni www.hjoladivinnuna.is.