Lausnin liggur ekki bara í sérskólum

Skólastjóri Arnarskóla telur að lausnin liggi ekki bara í sérskólum.
Skólastjóri Arnarskóla telur að lausnin liggi ekki bara í sérskólum. Samsett mynd

Arn­ar­skóli, sem þjón­ust­ar börn með stuðningsþarf­ir, mun að óbreyttu aðeins geta tekið inn fjóra nýja nem­end­ur á næsta skóla­ári en ríf­lega 30 um­sókn­ir bár­ust um skóla­vist.

Skóla­stjór­inn seg­ir hljóðið í þeim fjöl­skyld­um sem þurfa á þjón­ust­unni að halda vera þungt. Efla þurfi skóla­kerfið í heild til að bregðast við þeirri stöðu sem ríki, sér­skól­ar séu ekki eina lausn­in.

Hann von­ar að skól­inn fái nýja álmu til af­nota svo hægt verði að taka á móti allt að sjö nýj­um nem­end­um, en ekki aðeins fjór­um.

Útskrifa fjóra í vor

Morg­un­blaðið greindi frá því í síðustu viku að aðeins fjór­tán nem­end­ur fengju pláss í Kletta­skóla í Reykja­vík, sem þjón­ust­ar börn með sérþarf­ir, af þeim 53 sem sóttu um.

Arn­ar­skóli er sjálf­stætt starf­andi sér­skóli sem þjón­ust­ar börn með fötl­un og eru með fjölþætt­ar þarf­ir. Hann er fyrsti sjálf­stætt starf­andi sér­skóli lands­ins og er op­inn alla virka daga árs­ins.

Alls eru 37 nem­end­ur í skól­an­um, frá 1. og upp í 10. bekk, og munu fjór­ir út­skrif­ast í vor. Skól­inn er í Kópa­vogi en þjón­ust­ar börn óháð því í hvaða sveit­ar­fé­lagi þau búa.

Rafn Em­ils­son skóla­stjóri Arn­ar­skóla seg­ir eft­ir­spurn eft­ir skóla­vist nú svipaða og á síðasta ári. Hann tek­ur fram að þó um­sókn­irn­ar séu 30 búi skól­inn ekki yfir upp­lýs­ing­um um hvort fjöl­skyld­ur hafi sótt um pláss fyr­ir barnið sitt í öðrum sér­skól­um eða á sér­deild­um í grunn­skól­um.

„Eðli­lega er fólk að sækja um á mörg­um stöðum, þannig ein­hverj­ar af þess­um um­sókn­um eru á öll­um stöðum.“

Full­set­inn skóli

„Skól­inn er al­veg full­set­inn og rúm­lega það hvað fer­metr­ana varðar. Við erum búin að taka inn eins marga nem­end­ur og við get­um í þessu hús­næði sem við erum í núna.“

Arn­ar­skóli leig­ir hús­næði af Land­spít­al­an­um og er með tvær álm­ur af þrem­ur til af­nota. Rafn von­ast til að skól­inn fái þriðju álm­una strax á næsta skóla­ári.

„Við höf­um verið að vinna í því á fullu und­an­farna mánuði að reyna að fá þann hluta og ganga frá leigu­samn­ingi til þess að það geti gengið, og við erum vongóð að það ger­ist á næstu dög­um, helst, af því að þá get­um við tekið við aðeins fleiri nem­end­um. Þá gæt­um við tekið á móti þrem­ur til viðbót­ar og síðan stækkað skól­ann í fram­hald­inu þegar það verður búið að græja það .“

Hann seg­ir þó æski­legt að skól­inn taki ekki við fleir­um en 50 nem­end­um.

„Upp á það að halda vel utan um starf­sem­ina og fag­mennsku. Halda utan um bæði nem­enda­hóp­inn og starfs­manna­hóp­inn, sem verður flókn­ara eft­ir því sem að skól­inn stækk­ar.“

Þurf­um að kenna at­hafn­ir dag­legs lífs í al­menn­um skól­um

Rafn tel­ur að efla þurfi allt skóla­kerfið í heild til að sinna þörf­um þeirra barna sem eru með þroskafrávik.

„Ég held að lausn­in liggi ekk­ert bara í sér­skól­um, þetta þarf allt að tala sam­an. Við þurf­um að vera með sterka al­menna skóla – við erum með marga mjög sterka al­menna skóla, en við þurf­um að gera ráð fyr­ir krökk­un­um okk­ar líka í al­menna kerf­inu,“ seg­ir Rafn.

„Sem þýðir þá að við þurf­um að vera til­bú­in að kenna at­hafn­ir dag­legs lífs en þá þurf­um við að vera með þekk­ingu inn­an al­mennu skól­anna til þess að kenna at­hafn­ir dag­legs lífs og tak­ast á við það þegar nem­end­ur kom­ast í upp­nám eða eiga erfitt með að gera grein fyr­ir því hvað þau vilja og vilja ekki. Þannig við þurf­um að geta kennt óhefðbundn­ar tjá­skipta­leiðir líka.“

Þarf að efla kennslu

Til þess að það gangi eft­ir er sterk­ur starfs­manna­hóp­ur nauðsyn­leg­ur, að mati Rafns. 

„Þá er ég líka þeirr­ar skoðunar að menntavís­inda­svið þyrfti líka aðeins að efla þenn­an hluta hjá sér. Það er aðeins búið að efla hann, þau eru kom­in með nýja náms­braut í at­ferl­is­grein­ingu sem styrki þetta, en við þyrft­um að gera bet­ur.“

Rafn tek­ur þó fram að einnig þurfi að efla sér­deild­ir og sér­skóla. „Ég held þetta sé allt kerfið sem þurfi að styrkja,“ seg­ir hann.

„Ég held að við þurf­um að hafa breiðari starfs­manna­hóp, bæði kenn­ara­hóp og annað fag­fólk, sem er ve­lund­ir­bú­inn að kenna nem­end­um sem hafa mjög mikl­ar þjón­ustuþarf­ir, þurfa að læra óhefðbundn­ar leiðir í tján­ingu. Þetta eru nem­end­ur sem hafa jafn­vel lent í ein­hverj­um áföll­um. Við vilj­um að skóla­kerfið allt sé að reyna að mæta öll­um börn­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert