Arnarskóli, sem þjónustar börn með stuðningsþarfir, mun að óbreyttu aðeins geta tekið inn fjóra nýja nemendur á næsta skólaári en ríflega 30 umsóknir bárust um skólavist.
Skólastjórinn segir hljóðið í þeim fjölskyldum sem þurfa á þjónustunni að halda vera þungt. Efla þurfi skólakerfið í heild til að bregðast við þeirri stöðu sem ríki, sérskólar séu ekki eina lausnin.
Hann vonar að skólinn fái nýja álmu til afnota svo hægt verði að taka á móti allt að sjö nýjum nemendum, en ekki aðeins fjórum.
Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að aðeins fjórtán nemendur fengju pláss í Klettaskóla í Reykjavík, sem þjónustar börn með sérþarfir, af þeim 53 sem sóttu um.
Arnarskóli er sjálfstætt starfandi sérskóli sem þjónustar börn með fötlun og eru með fjölþættar þarfir. Hann er fyrsti sjálfstætt starfandi sérskóli landsins og er opinn alla virka daga ársins.
Alls eru 37 nemendur í skólanum, frá 1. og upp í 10. bekk, og munu fjórir útskrifast í vor. Skólinn er í Kópavogi en þjónustar börn óháð því í hvaða sveitarfélagi þau búa.
Rafn Emilsson skólastjóri Arnarskóla segir eftirspurn eftir skólavist nú svipaða og á síðasta ári. Hann tekur fram að þó umsóknirnar séu 30 búi skólinn ekki yfir upplýsingum um hvort fjölskyldur hafi sótt um pláss fyrir barnið sitt í öðrum sérskólum eða á sérdeildum í grunnskólum.
„Eðlilega er fólk að sækja um á mörgum stöðum, þannig einhverjar af þessum umsóknum eru á öllum stöðum.“
„Skólinn er alveg fullsetinn og rúmlega það hvað fermetrana varðar. Við erum búin að taka inn eins marga nemendur og við getum í þessu húsnæði sem við erum í núna.“
Arnarskóli leigir húsnæði af Landspítalanum og er með tvær álmur af þremur til afnota. Rafn vonast til að skólinn fái þriðju álmuna strax á næsta skólaári.
„Við höfum verið að vinna í því á fullu undanfarna mánuði að reyna að fá þann hluta og ganga frá leigusamningi til þess að það geti gengið, og við erum vongóð að það gerist á næstu dögum, helst, af því að þá getum við tekið við aðeins fleiri nemendum. Þá gætum við tekið á móti þremur til viðbótar og síðan stækkað skólann í framhaldinu þegar það verður búið að græja það .“
Hann segir þó æskilegt að skólinn taki ekki við fleirum en 50 nemendum.
„Upp á það að halda vel utan um starfsemina og fagmennsku. Halda utan um bæði nemendahópinn og starfsmannahópinn, sem verður flóknara eftir því sem að skólinn stækkar.“
Rafn telur að efla þurfi allt skólakerfið í heild til að sinna þörfum þeirra barna sem eru með þroskafrávik.
„Ég held að lausnin liggi ekkert bara í sérskólum, þetta þarf allt að tala saman. Við þurfum að vera með sterka almenna skóla – við erum með marga mjög sterka almenna skóla, en við þurfum að gera ráð fyrir krökkunum okkar líka í almenna kerfinu,“ segir Rafn.
„Sem þýðir þá að við þurfum að vera tilbúin að kenna athafnir daglegs lífs en þá þurfum við að vera með þekkingu innan almennu skólanna til þess að kenna athafnir daglegs lífs og takast á við það þegar nemendur komast í uppnám eða eiga erfitt með að gera grein fyrir því hvað þau vilja og vilja ekki. Þannig við þurfum að geta kennt óhefðbundnar tjáskiptaleiðir líka.“
Til þess að það gangi eftir er sterkur starfsmannahópur nauðsynlegur, að mati Rafns.
„Þá er ég líka þeirrar skoðunar að menntavísindasvið þyrfti líka aðeins að efla þennan hluta hjá sér. Það er aðeins búið að efla hann, þau eru komin með nýja námsbraut í atferlisgreiningu sem styrki þetta, en við þyrftum að gera betur.“
Rafn tekur þó fram að einnig þurfi að efla sérdeildir og sérskóla. „Ég held þetta sé allt kerfið sem þurfi að styrkja,“ segir hann.
„Ég held að við þurfum að hafa breiðari starfsmannahóp, bæði kennarahóp og annað fagfólk, sem er velundirbúinn að kenna nemendum sem hafa mjög miklar þjónustuþarfir, þurfa að læra óhefðbundnar leiðir í tjáningu. Þetta eru nemendur sem hafa jafnvel lent í einhverjum áföllum. Við viljum að skólakerfið allt sé að reyna að mæta öllum börnum.“