Ingu Sæland húsnæðismálaráðherra bar að fara að jafnréttislögum þegar hún skipaði nýja stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um miðjan mars, en þau kveða á um að a.m.k. tveir stjórnarmenn af fimm þurfi að vera konur.
Skipun stjórnarinnar hefur vakið nokkur viðbrögð. Verkfræðingafélagið gerði athugasemdir við skipunina þar sem enginn stjórnarmanna byggi yfir sérfræðikunnáttu á sviði mannvirkjagerðar, en ekki síður staldra menn við skilyrði jafnréttislaga.
Jafnréttisstofa óskaði þannig í gær eftir útskýringum frá húsnæðismálaráðherra á skipun hennar í stjórnina, en svar hefur skiljanlega ekki borist enn.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, lagaprófessor við HR sem hefur sérhæft sig í stjórnsýslumálum, segir engum blöðum um það að fletta að þarna hafi ráðherrann ekki farið að lögum.
„Samkvæmt 28. gr. jafnréttislaga þá verður ekki séð samkvæmt orðanna hljóðan að ráðherra geti vikið frá þeim lagafyrirmælum,“ segir Hafsteinn í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að viðbárur Ingu um að hún hafi notfært sér undanþáguákvæði í lögunum standist ekki heldur.
„Önnur málsgrein 28. gr., sem kveður á um undantekningar, er bundin við tilnefningaraðila,“ bendir hann á. Aðeins einn stjórnarmanna var skipaður samkvæmt tilnefningu, en Inga hafi skipað hina fjóra án tilnefningar, svo undanþáguákvæðið eigi ekki við.
Inga hafði látið hafa eftir sér að við tilnefningar í stjórnir væri heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tilnefna bæði karl og konu og það hefði hún einmitt gert. Hún hefði skipað þá aðila sem hún teldi hæfasta til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum.
„Þetta er pólitískt skipuð nefnd.“
Hafsteinn segir ekkert skjól í því.
„Lögin gera ekki ráð fyrir því að pólitísk sjónarmið eða markmið geti leitt til frávika frá jafnréttislögum.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.