Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning bjóða forsetahjónunum Höllu Tómasdóttur og Birni Skúlasyni til þriggja daga ríkisheimsóknar, sem hefst í Stokkhólmi í dag.
Með í för verða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra ásamt opinberri sendinefnd og fulltrúum viðskipta- og menningarlífs.
Markmið heimsóknarinnar, samkvæmt vef forseta Íslands, er að styrkja tengsl landanna og vinna að frekara samstarfi, t.d. á sviði heilbrigðismála, kvikmyndagerðar og öryggismála. Íslandsstofa leiðir viðskiptasendinefnd með fulltrúum 30 íslenskra fyrirtækja með áherslu á líftækni, nýsköpun og fjárfestingar. Í tilefni heimsóknarinnar fer einnig sendinefnd á sviði sjónvarps- og kvikmyndagerðar og tekur þar þátt í dagskrá sem skipulögð er af Swedish institute og sænska utanríkisráðuneytinu, ásamt Kvikmyndamiðstöð Íslands og Film in Iceland.
Dagskráin í dag hefst með móttökuathöfn við konungshöllina í Stokkhólmi. Að henni lokinni á Halla fund með forseta löggjafarþingsins, Andreas Norlén, ásamt utanríkisráðherra og öðrum sendinefndarmönnum. Að loknum hádegisverði með konungshjónunum eiga forseti og utanríkisráðherra sams konar fund með Ulf Kristersson forsætisráðherra. Því næst er skoðaður varðbátur í eigu sænsku Landhelgisgæslunnar.
Á sama tíma fer Björn Skúlason með Silvíu Svíadrottningu í heimsókn á Silviahemmet, dagvistunarúrræði sem hún stofnaði fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma.