Magnús Ragnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir skipun Heimis Más Péturssonar í stjórn RÚV mikinn óþarfa. Gamall samstarfsmaður segist þó í léttum dúr treysta honum til að „grafa“ RÚV.
Segir hann skipunina óþarfa og að hann treysti því ekki að Heimir Már fari ekki að skipta sér af málum innan RÚV. Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála þar sem Magnús fór yfir fréttir vikunnar ásamt Gylfa Þór Þorsteinssyni, sviðsstjóra hjá Rauða krossinum.
„Þetta er svo mikill óþarfi þessi skipan og ef þú hefur séð einhver viðtöl sem hann hefur tekið þátt í með sínum ráðherrum upp á síðkastið, þetta er ekki maður sem virðir línur, einhver boundaries, hann niðurlægir ráðherrana sína aftur og aftur með því að grípa fram í fyrir þeim, stoppar viðtöl, leiðréttir þá, er þetta maður sem ég treysti til þess að skipta sér ekki af neinu innan Ríkisútvarpsins? Ég held ekki? Þetta er bara svo mikill óþarfi,“ útskýrir Magnús.
Gylfi nálgast málið úr annarri átt en hann hefur starfað með Heimi Má.
„Ég vann nú með Heimi Má. Mitt fyrsta starf var að ég var grafari í Kirkjugörðum Reykjavíkur. Hann var verkstjórinn minn þar. Var fínn sem slíkur. Þannig að ég get alveg treyst honum til þess að grafa RÚV líka. Það er bara örugglega ekkert mál.“
Þetta hljómar nú eins og músík í eyrum Magnúsar.
„Ég veit það, þess vegna skaut ég þessu nú að,“ bætir Gylfi Þór við.
Í liðinni viku ræddi Morgunblaðið við Heimi Má. Þar kom fram að hann hyggst skipta sér af innri málefnum í starfsemi RÚV. Um það sagði hann einfaldlega:
„Það er ekkert sem segir að stjórnarmaður í stjórn RÚV geti ekki verið gagnrýninn á fréttaflutning RÚV og á starfsemi RÚV. Stjórnarmenn í RÚV eru einmitt þar til að vakta starfsemi félagsins,“ segir Heimir og bætir við:
„Fréttastofa Ríkisútvarpsins er sjálfstæð fréttastofa og stjórn Ríkisútvarpsins hefur engin afskipti af stjórn fréttastofu.“
En er þá eðlilegt að stjórnarmaður gagnrýni störf fréttastofunnar og einstakra starfsmanna hennar opinberlega?
„Já, ef þeir hafa unnið fyrir því þá er það alveg sjálfsagt að stjórnarmaður í RÚV geri það.“
Viðtalið við Magnús og Gylfa Þór má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: