Landsréttur felldi í dag úrskurð um gæsluvarðhald yfir Sigurði Almari Sigurðssyni úr gildi. Sigurður Almar var handtekinn 1. maí grunaður um að hafa svipt ferðamann frelsi sínu í heimahúsi á Hverfisgötu.
Rúv greinir frá, en úrskurðurinn hefur ekki verið birtur á vef Landsréttar.
Sigurður Almar er metinn hættulegur sjálfum sér og öðrum en í úrskurði Landsréttar segir að ekki sé talið nægjanlegt að hann þyki líklegur til árásar. Hætta þurfi að vera yfirvofandi.
Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald „á grundvelli almannahagsmuna“ 2. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verjandi Sigurðar Almars gagnrýndi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur og áfrýjaði honum til Landsréttar.
Í úrskurðinum segir að ljóst þyki að Sigurður Almar glími við fjölþættan vanda og eigi sögu um geðræn vandamál. Hann er greindur með þroskaröskun og hefur lengi misnotað fíkniefni.
Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu.
Kemur fram í úrskurði Landsréttar að ferðamaðurinn hafi afhent lögreglu skotfæri sem hann tók úr vopni sem Sigurður Almar ógnaði honum með.