„Hér er hlýtt og gott,“ segir Óttar Már Kárason í samtali við blaðamann þar sem hann er staddur við störf í harðfiskverkuninni Sporði í Bakkagerði á Austfjörðum. Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands náði hitinn þar á bæ 20 gráðum nú fyrir hádegi.
„Það er bara nokkuð gott veður, sjóðandi hiti en svolítill vindur,“ segir Óttar Már og bætir við að himininn sé alveg heiðskír.
Spurður hvort hann muni eftir öðrum eins hita í byrjun maí segir hann:
„Ég er nú býsna gleyminn svo það er ekki gott að reiða sig á mig en það er svo sannarlega sjóðandi heitt.“
Hann tekur þó fram að gott veður sé ekki sjaldgjæf sjón í þessum landshluta.
„Það er nú yfirleitt gott. Það er reyndar búið að vera sérstaklega gott veður upp á síðkastið, en ekki svona hlýtt.“
Óttar hefur enn ekki náð að nýta blíðviðrið í dag þar sem hann er í vinnunni en hann segir stemmninguna sérlega góða meðal starfsmanna harðfiskverkunarinnar: „Hún er alltaf góð en enn betri í þessu veðri.“
Eftir vinnu stefnir Óttar á að nýta síðustu sólargeislana og fara í frisbígolf.