Ástandið óásættanlegt en ekkert breytist

Horft af Öxi yfir vegstæði á leirunum í fjarðarbotni.
Horft af Öxi yfir vegstæði á leirunum í fjarðarbotni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lé­legt fjar­skipta­sam­band á ein­um hættu­leg­asta vegi lands­ins, Ax­ar­vegi, krefst úr­bóta og það strax. Stór­ir kafl­ar á þeim vegi, auk þjóðveg­ar­ins um Ham­ars­fjörð og Álfta­fjörð, eru annað hvort með engu eða lé­legu fjar­skipta­sam­bandi.

Þetta kem­ur fram í bók­un heima­stjórn­ar Djúpa­vogs­hrepps.

Í skýrslu um stöðu fjar­skipta­mála kem­ur fram að vand­ann megi m.a. rekja til rík­is­ins sem hef­ur ekki lagt nægi­legt fjár­magn í Örygg­is­fjar­skipti. Því fé­lagi ber að sjá um upp­bygg­ingu og rekst­ur mann­virkja fyr­ir neyðar- og ör­ygg­is­fjar­skipti fyr­ir viðbragðsaðila.

Eiður Ragn­ars­son, starfsmaður heima­stjórn­ar­inn­ar og full­trúi sveit­ar­stjóra, seg­ir heima­menn hafa talað fyr­ir dauf­um eyr­um um úr­bæt­ur á þess­um dauðu blett­um í mörg ár. Lítið sem ekk­ert ger­ist. Ástandið sé óá­sætt­an­legt.

„Hér hef­ur nátt­úru­lega ekk­ert breyst í fjölda mörg ár,“ seg­ir hann. „Öll sveit­ar­fé­lög á Aust­ur­landi eru búin að vera að ýta á eft­ir þessu.“

Við snjóruðning á Öxi.
Við snjóruðning á Öxi. Mynd/​SG vél­ar

Fjöl­far­inn og hættu­leg­ur veg­ur

Í bók­un heima­stjórn­ar Djúpa­vogs er vak­in at­hygli á því að sí­auk­in um­ferð sé um Ax­ar­veg og aðra þjóðvegi í gamla Djúpa­vogs­hreppi og því sé um mikið ör­ygg­is­mál að ræða fyr­ir bæði veg­far­end­ur og viðbragðsaðila.

Ax­ar­veg­ur­inn er met­inn hættu­leg­asti veg­ur lands­ins þegar m.a. er tekið mið af ekn­um kíló­metr­um um veg­inn. Sam­kvæmt sömu reikni­reglu eru kafl­ar á þjóðveg­in­um í Ham­ars­firði og Álftaf­irði þeir 11. í röðinni á þeim lista.

Eiður seg­ist vita til þess að um­ferðaró­höpp hafi orðið á Ax­ar­vegi þar sem ekk­ert fjar­skipta­sam­band er.

„Það hef­ur sloppið ein­fald­lega vegna þess að aðrir veg­far­end­ur hafa komið að og ein­fald­lega veitt aðstoð og komið mönn­um í síma­sam­band,“ seg­ir Eiður.

„Þetta á við um kafla í Ham­ars­firði og Álftaf­irði líka, þar er síma­sam­band stop­ult.“

Þá sé síma­sam­band lítið sem ekki neitt á snjóflóðahættu­svæði í Þvott­ár- og Hval­nesskriðum.

„Á vet­urna er það snjóflóðahættu­svæði og um­ferð þar þyrfti klár­lega að hafa síma­sam­band.“

Í bókun heimastjórnar Djúpavogs er vakin athygli á því að …
Í bók­un heima­stjórn­ar Djúpa­vogs er vak­in at­hygli á því að sí­auk­in um­ferð sé um Ax­ar­veg og aðra þjóðvegi í gamla Djúpa­vogs­hreppi og því sé um mikið ör­ygg­is­mál að ræða fyr­ir bæði veg­far­end­ur og viðbragðsaðila. Kort/​Map.is

Van­fjár­mögn­un af hálfu rík­is­ins

Á fundi heima­stjórn­ar sem hald­inn var í síðasta mánuði var skýrsla Aust­ur­brú­ar um fjar­skipta­mál á Aust­ur­landi kynnt.

Í skýrsl­unni seg­ir m.a. að sam­kvæmt kröf­um sem á fjar­skipa­fé­lög­in voru sett með út­gáfu leyfa til þeirra vorið 2023 beri þeim að dekka alla stofn­vegi lands­ins og koma á há­hraða far­neti í byggð. Áætlað er að bæta þurfi ell­efu nýj­um sendistöðum við til að ná fullri dekk­un á stofn­veg­um á Aust­ur­landi.

„Áætlað var að sú upp­bygg­ing væri unn­in í sam­starfi fjar­skipta­fé­lag­anna við Örygg­is­fjar­skipti en það sam­starf er í upp­námi vegna van­fjár­mögn­un­ar rík­is­ins á þætti Örygg­is­fjar­skipta,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Eng­ar kröf­ur um dekk­un sums staðar

Í skýrsl­unni er vak­in at­hygli á því að þó að kröf­ur um dekk­un far­neta á stofn­veg­um séu góðar og gild­ar þá séu ekki all­ir þjóðveg­ir skil­greind­ir sem stofn­veg­ir.

„Á Aust­ur­landi eru lang­ir veg­kafl­ar sem ekki eru skil­greind­ir sem stofn­veg­ir og þar eru eng­ar kröf­ur á Fjar­skipta­fé­lög­in um að bæta dekk­un.“

Tug­ir ábend­inga

Ríf­lega 80 ábend­ing­ar bár­ust frá viðbragðsaðilum, ferðaþjón­ustuaðilum, at­vinnu­bíl­stjór­um og Vega­gerðinni til Aust­ur­brú­ar þegar óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um um hvar helst vantaði upp á dreif­ingu bæði far­neta og Tetra.

Að því er fram kem­ur í skýrsl­unni bár­ust marg­ar ábend­ing­ar um svæði þar sem úr­bæt­ur eru þegar komn­ar í far­veg, t.d. við stofn­vegi, en einnig bár­ust ábend­ing­ar um bæði slæmt eða ekk­ert far­neta- og Tetra­sam­band á svæðum þar sem eng­in plön eru enn um úr­bæt­ur ár.

Heima­stjórn Djúpa­vogs­hrepps bein­ir því til sveit­ar­stjórn­ar Múlaþings að ýta á eft­ir úr­bót­um á fjar­skipta­sam­bandi á þeim veg­köfl­um sem minnst er á hér að ofan sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert