Lélegt fjarskiptasamband á einum hættulegasta vegi landsins, Axarvegi, krefst úrbóta og það strax. Stórir kaflar á þeim vegi, auk þjóðvegarins um Hamarsfjörð og Álftafjörð, eru annað hvort með engu eða lélegu fjarskiptasambandi.
Þetta kemur fram í bókun heimastjórnar Djúpavogshrepps.
Í skýrslu um stöðu fjarskiptamála kemur fram að vandann megi m.a. rekja til ríkisins sem hefur ekki lagt nægilegt fjármagn í Öryggisfjarskipti. Því félagi ber að sjá um uppbyggingu og rekstur mannvirkja fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti fyrir viðbragðsaðila.
Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnarinnar og fulltrúi sveitarstjóra, segir heimamenn hafa talað fyrir daufum eyrum um úrbætur á þessum dauðu blettum í mörg ár. Lítið sem ekkert gerist. Ástandið sé óásættanlegt.
„Hér hefur náttúrulega ekkert breyst í fjölda mörg ár,“ segir hann. „Öll sveitarfélög á Austurlandi eru búin að vera að ýta á eftir þessu.“
Í bókun heimastjórnar Djúpavogs er vakin athygli á því að síaukin umferð sé um Axarveg og aðra þjóðvegi í gamla Djúpavogshreppi og því sé um mikið öryggismál að ræða fyrir bæði vegfarendur og viðbragðsaðila.
Axarvegurinn er metinn hættulegasti vegur landsins þegar m.a. er tekið mið af eknum kílómetrum um veginn. Samkvæmt sömu reiknireglu eru kaflar á þjóðveginum í Hamarsfirði og Álftafirði þeir 11. í röðinni á þeim lista.
Eiður segist vita til þess að umferðaróhöpp hafi orðið á Axarvegi þar sem ekkert fjarskiptasamband er.
„Það hefur sloppið einfaldlega vegna þess að aðrir vegfarendur hafa komið að og einfaldlega veitt aðstoð og komið mönnum í símasamband,“ segir Eiður.
„Þetta á við um kafla í Hamarsfirði og Álftafirði líka, þar er símasamband stopult.“
Þá sé símasamband lítið sem ekki neitt á snjóflóðahættusvæði í Þvottár- og Hvalnesskriðum.
„Á veturna er það snjóflóðahættusvæði og umferð þar þyrfti klárlega að hafa símasamband.“
Á fundi heimastjórnar sem haldinn var í síðasta mánuði var skýrsla Austurbrúar um fjarskiptamál á Austurlandi kynnt.
Í skýrslunni segir m.a. að samkvæmt kröfum sem á fjarskipafélögin voru sett með útgáfu leyfa til þeirra vorið 2023 beri þeim að dekka alla stofnvegi landsins og koma á háhraða farneti í byggð. Áætlað er að bæta þurfi ellefu nýjum sendistöðum við til að ná fullri dekkun á stofnvegum á Austurlandi.
„Áætlað var að sú uppbygging væri unnin í samstarfi fjarskiptafélaganna við Öryggisfjarskipti en það samstarf er í uppnámi vegna vanfjármögnunar ríkisins á þætti Öryggisfjarskipta,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni er vakin athygli á því að þó að kröfur um dekkun farneta á stofnvegum séu góðar og gildar þá séu ekki allir þjóðvegir skilgreindir sem stofnvegir.
„Á Austurlandi eru langir vegkaflar sem ekki eru skilgreindir sem stofnvegir og þar eru engar kröfur á Fjarskiptafélögin um að bæta dekkun.“
Ríflega 80 ábendingar bárust frá viðbragðsaðilum, ferðaþjónustuaðilum, atvinnubílstjórum og Vegagerðinni til Austurbrúar þegar óskað var eftir upplýsingum um hvar helst vantaði upp á dreifingu bæði farneta og Tetra.
Að því er fram kemur í skýrslunni bárust margar ábendingar um svæði þar sem úrbætur eru þegar komnar í farveg, t.d. við stofnvegi, en einnig bárust ábendingar um bæði slæmt eða ekkert farneta- og Tetrasamband á svæðum þar sem engin plön eru enn um úrbætur ár.
Heimastjórn Djúpavogshrepps beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að ýta á eftir úrbótum á fjarskiptasambandi á þeim vegköflum sem minnst er á hér að ofan sem allra fyrst.