Afgreiðslu tillögu um að skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar verði falið að vinna að sérskólaúrræði fyrir þau börn sem ekki komast að í Klettaskóla næsta haust var frestað á fundi ráðsins sl. mánudag.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla- og frístundaráði, flutti tillöguna og sagði í samtali við Morgunblaðið það vera vonbrigði að meirihlutinn hefði ekki treyst sér til að samþykkja tillöguna strax, ekki myndi veita af tímanum fram á næsta haust til að finna nýtt úrræði fyrir börnin.
Segir í tillögunni að nýtt sérskólaúrræði eigi að vera tilbúið til notkunar í byrjun næsta skólaárs, þ.e. í haust, þannig að þeim nemendum sem uppfylltu skilyrði til inngöngu í Klettaskóla verði tryggð skólavist í sérskólaúrræði. Alls var 28 slíkum nemendum synjað um skólavist þegar umsóknir voru afgreiddar í vor.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá varð að vísa umsóknum margra nemenda frá þegar umsóknir um skólavist komandi haust voru teknar fyrir. Er ástæðan sú að húsnæði Klettaskóla er yfirfullt, enda þótt ítrekað hafi verið bætt við kennslustofum til að mæta fjölgun nemenda. Ekki bætir síðan úr skák að sérskólakennarar eru ekki á hverju strái.
Í greinargerð Mörtu með tillögunni segir að hún sé fram komin vegna þeirrar alvarlegu stöðu að af 42 nemendum, sem uppfylltu skilyrði til inngöngu í Klettaskóla, hafi einungis 14 hlotið skólavist. Þetta stafi af skorti á húsnæði en það hafi legið lengi fyrir að Klettaskóli sé sprunginn.
Brýnt sé að koma til móts við nemendur sem fengu ekki skólavist í Klettaskóla næsta haust og því lagt til að Reykjavíkurborg komi á laggirnar sérskólaúrræði í tæka tíð, sem geti tekið á móti þeim nemendum sem ekki fengu inngöngu í Klettaskóla.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað á fundinum, eins og fyrr segir, en næsti fundur í skóla- og frístundaráði verður eftir tæpar tvær vikur. Væntir Marta þess að tillagan komi þá til afgreiðslu, enda brýnt að bregðast við ástandinu.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.