Íslendingabók, sem er í sameiginlegri eigu Íslenskrar erfðagreiningar og Friðríks Skúlasonar tölvunarfræðings, verður áfram rekin í núverandi mynd þrátt fyrir skipulagsbreytingar innan Íslenskrar erfðagreiningar.
Íslendingar, sem margir hverjir nota Íslendingabók reglulega, hafa haft áhyggjur af framtíð Íslendingabókar í kjölfar fyrirvaralausrar uppsagnar Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar til tæpra 29 ára.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við mbl.is að engar breytingar verði á Íslendingabók, það sé ekkert slíkt í farvatninu og engar breytingar varðandi Íslendingabók hafi komið til umræðu innan Íslenskrar erfðagreiningar.
Spurð hvort hún eigi von á að þær skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar innan fyrirtækisins geti haft einhver áhrif á rekstur Íslendingabókar segist Þóra ekki eiga von á því.
„Þjónustan er í boði með því sniði sem hún hefur verið og það stendur ekki til, enn sem komið er alla vega, að breyta því.“