Reykjavíkurborg fékk sinn fyrsta loftslagsborgarsamning samþykktan á loftslagsráðstefnu í borginni Vilníus í Litháen í morgun. Á ráðstefnuna mættu fulltrúar samtals 112 loftslagsborga sem taka þátt í Evrópusamstarfi um að verða kolefnislausar og snjallar árið 2030.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis-og skipulagsráðs Reykjavíkur, flaug til Evrópu og tók formlega við viðurkenningunni.
Samtals 39 borgir hlutu í dag þennan opinbera stimpil sem viðurkennir metnaðarfull markmið borganna og greiðir þeim leið að fjármagni sem styður við kolefnishlutleysi.
„Reykjavík hefur nú fengið sinn loftslagsborgarsamning samþykktan og ég tók á móti svokölluðum mission label hér í dag,“ er haft eftir Dóru Björt í tilkynningu borgarinnar.
„Það er mikill heiður og viðurkenning á okkar öfluga plani. Það felur líka í sér aðgang að enn sterkari stuðningi frá NetZeroCities og möguleikum á enn víðtækara samstarfi. Við hlökkum til að vinna að þessu áfram með þátttakendum og öllum sem hafa áhuga, því loftslagsmál eru jú risastórt samstarfsverkefni og það er engin önnur leið. Þetta skiptir öllu máli fyrir velferð okkar allra og framtíðarkynslóða.“
Fyrsti loftslagsborgarsamningur Reyjavíkur var undirritaður 7. október 2024. Hann inniheldur 15 aðgerðir og 18 þátttakendur. Þátttakendur samningins hafa skuldbundið sig til að móta aðgerðir um losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við loftslagsmarkmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus 2030. Einnig ber þeim að sitja samráðsfundi til árins 2030 í hið minnsta.
Á dögunum var haldin vinnustofa með þátttakendunum en samningurinn á að vera lifandi og endurskoðaður reglulega.
Fjölbreyttur hópur þátttakenda tekur þátt í samningnum en auk Reykjavíkurborgar skrifar umhverfis-orku og loftslagsráðuneytið, innviðaráðuneytið, háskólanir á höfuðborgarsvæðinu og önnur fyrirtæki og opinberar stofnanir undir hann.
Markmið loftslagsborgarsamnings Reykjavíkur er að marka heildarsýn borganna að leið sinni að kolefnishlutleysi ásamt því inniheldur hann bæði fjárfestingar og aðgerðaráætlun sem unnin hefur verið í samstarfi við ráðgjafa hjá NetZeroCities.
Viðurkenning á loftslagsborgarsamning Reykjavíkur gefur borginni aðgang að alþjóðlegum fjármálavettvangi fyrir loftslagsborgir og greiðir því leið að fjármagni úr einkageiranum. Jafnframt fá borgirnar aðgengi að fjármagni og ráðgjöf frá Evrópska fjárfestingabakanum.
Hægt er að lesa meira um samninginn hér.