Fyrirséð er að lækka þurfi leyfðan afla innan dags við strandveiðar í sumar til þess að standa við gefin loforð um 48 daga til veiða.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið eftir ríkisstjórnarfund í gær að ekki yrði farið umfram ráðgjöf við úthlutun á veiðiheimildum.
Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um þær leiðir sem verið væri að skoða til þess að nægur kvóti verði til strandveiða í 48 daga, en veiðar hófust fyrr í vikunni.
Af þeim leiðum sem ráðherra hefur þegar útilokað má þó leiða líkur að því að eini möguleikinn sem eftir stendur sé að lækka leyfðan afla innan dags.
Ef fara ætti þá leið að auka við strandveiðikvótann til þess að óbreyttar veiðar gætu staðið yfir í 48 daga, þyrfti annað hvort að sækja kvóta annað eða gefa út nýjan kvóta umfram ráðgjöf.
Í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu á mánudag tók ráðherra fyrir það að veiðiheimildir til strandveiða yrðu sóttar í aflamarkskerfið.
Eftir stendur þá möguleikinn að sækja kvóta á skiptimarkað. Þar getur ráðherra mest sótt um 2700-2800 tonn og vantar þá enn 15-18 þúsund tonn, miðað við útreikninga í umsögn SFS við reglugerð til breytingar á reglugerð um strandveiðar.
Aðrar leiðir virðast ekki færar til þess að auka við veiðiheimildir. Af því leiðir að líklegast er eina leiðin til þess að halda tímabili strandveiða opnu í 48 daga að takmarka daglegt magn.
Það leiðir aftur af sér að heildarveiði strandveiðimanna á tímabilinu aukist lítillega frá því sem áður var, þrátt fyrir að tímabilið lengist.