Maður var handtekinn í Hafnarfirði fyrir húsbrot og líkamsárás og var vistaður í fangageymslu lögreglunnar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 50 mál skráð í kerfinu á umræddu tímabili og gista þrír í fangageymslu.
Tilkynnt var um hestaslys í hverfi 110. Kona féll af hestbaki og fékk höfuðáverka. Hún var flutt á bráðamóttöku Landspítalans til frekari skoðunar.
Einn var handtekinn í hverfi 105 vegna gruns um fíkniefnamisferli og var hann látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Einn var handtekinn fyrir skemmdarverk í hverfi 105 og var hann vistaður í fangageymslu og þá hafði lögreglan afskipti af nokkrum ökumönnum, bæði vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og fyrir umferðarlagabrot.