„Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum auðvitað áhyggjur af þessu, bæði fyrir fagið en líka fyrir safnið sjálft,“ segir Snædís Sunna Thorlacius, formaður Félags fornleifafræðinga. Þremur fornleifafræðingum var sagt upp störfum á Þjóðminjasafni Íslands í gær.
Ríkisútvarpið hefur greint frá því að samtals hafi fjórum starfsmönnum safnsins verið sagt upp. Að sögn þjóðminjavarðar Þjóðminjasafnsins eru hagræðingarkröfur ástæða uppsagnanna.
Í samtali við mbl.is segir Snædís að ekki séu margar fastar stöður fyrir fornleifafræðinga yfir höfuð á Íslandi.
Hún segir helming þeirra sem eru menntaðir fornleifafræðingar og störfuðu við safnið hafa verið sagt upp, og af tveimur stöðum fornleifafræðinga á safninu hafi önnur verið lögð niður.
„Núna er bara ein staða fornleifafræðings eftir á safninu, en svo eru aðrir sem eru svona sérfræðingar í forngripum og munasafni sem starfa þarna, sem eru með grunn í fornleifafræði og eru félagsmenn í félaginu.“
Um áhyggjur sínar af stöðu safnsins segir Snædís:
„Þjóðminjasafnið er eitt af höfuðsöfnum Íslands og að því fylgja ákveðnar skyldur, eins og að hafa forystu í málefnum safna á sínu sviði og að sjálfsögðu eru fornleifar grundvallarþáttur í starfsemi Þjóðminjasafnsins. Við erum bara hrædd um að það verði ákveðið þekkingartap innan safnsins á sviði fornminja með svona fáa fornleifafræðinga innanborðs.“
Snædís segir enn fremur að hún hafi rætt við Hörpu Þórsdóttur, þjóðminjavörð safnsins, fyrr í dag þar sem farið var yfir ástæðurnar fyrir uppsögnunum.
Þær hafi verið vegna hagræðingar, knúnar áfram af aðhaldi í ríkisrekstri, en einnig vegna áherslubreytinga innan safnsins.
„Þau eru að búa til tvær nýjar stöður með annars konar sérþekkingu og þar af leiðandi skera niður í fornleifaþekkingunni.“
Ekki náðist í Hörpu Þórsdóttur við gerð fréttarinnar.