„Við höfum aldrei séð hval í Hvalfirði í þau 25 ár sem við höfum verið með hvalaskoðunarferðir, þannig að þetta er alveg nýtt fyrir okkur, og síðast í gær frétti ég af stökkvandi hvölum við Ferstiklu,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Eldingar, um hnúfubaka sem sést hafa í firðinum undanfarna daga.
Hún segist hafa fengið ábendingu um þetta á þriðjudaginn í síðustu viku og talið fyrst að um væri að ræða brot á skerjum við munna Hvalfjarðarganganna.
„Núna eru þeir komnir það innarlega að við förum ekki á stóru bátunum að þeim heldur nálgumst þá á RIB-bátum. Þetta voru meira hrefnur áður en núna er þetta hnúfubakur.“
Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir skýringuna á því að hvalir sjáist á þessum stað vera þá að þeir elti fæðuna og fuglinn í kring gefi það einnig til kynna.
„Þetta er hnúfubakur og hann er væntanlega þarna á eftir smásíld, brislingi eða einhverju öðru æti. Þeir fara þangað sem ætið er og þvælast víða. Hnúfubakur er ólíkur öðrum skíðishvölum að því leyti að hann er meiri tækifærissinni þegar kemur að fæðuöfluninni, þannig að það skiptist til helminga áta og fiskur. Hrefna er svipuð hnúfubaknum en stóru skíðishvalirnir eru nær eingöngu í átunni. Yfir 90% af fæðu skíðishvala eru áta. Steypireyður, langreyður og sandreyður lifa nær eingöngu á átunni.“