Markmið Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og ríkisstjórnarinnar er að gæta þess að virða hagsmuni þjóðarinnar í sölunni á Íslandsbanka með þeim hætti að reyna að tímasetja söluna þannig að aðstæður á markaði leyfi.
Þetta sagði Daði í ræðu sinni í 2. umræðu um frumvarpið um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka á Alþingi í dag.
Ræddi ráðherrann hvenær aðstæður á markaði gætu verið heppilegar til sölunnar. Sagði hann engan geta séð fyrir hver þróun markaða geti orðið á morgun eða í næsta mánuði og þess vegna erfitt að sjá fyrir hvenær hentugt væri að losa stöðu ríkisins í Íslandsbanka.
Daði sagði þó að almennt sé miðað við að óheppilegt sé að losa eignarhlut á borð við hlut ríkisins í Íslandsbanka á tíma þegar mikil hreyfing væri á mörkuðum, sérstaklega þegar óvissa væri vaxandi og verð fallandi.
„Þannig hef ég m.a. nokkrum sinnum talað um glugga í þessu samhengi. Þegar talað er um glugga er einungis verið að ræða það að miðað sé við að stór sala fari fram á tíma þar sem ætla má að enginn undirliggjandi óvissa valdi því að markaðir séu óeðlilegar grunnir og þar með að framboðsaukningin leiði til mikilla verðhreyfinga eða að fyrirséð sé að einhverjar meiri háttar upplýsingar sem gætu haft áhrif á markaðsverð eigi sér stað meðan á sölunni stendur.“
Þannig sagði Daði að markmið sitt sem fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórnarinnar væri að gæta þess að hagsmunir þjóðarinnar yrðu virtir með því að reyna að tímasetja söluna þannig að aðstæður á markaði leyfi hana. Það muni ríkisstjórnin reyna að gera.