Velsældarþingið Wellbeing Economy Forum sem embætti landlæknis ásamt fjölda innlendra og erlendra aðila standa fyrir hefst á morgun. Að þinginu koma bæði innlendar og alþjóðlegar stofnanir.
Er þingið einnig hluti af JA PreventNCD, sem er styrkt af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins.
Verndari Velsældarþingsins er forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og fundarstjóri er Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis.
Í tilkynningu frá embætti landlæknis kemur fram að á þinginu verði fjallað um hvernig hægt sé að nota velsældarviðmið við opinbera stefnumótun og í atvinnulífinu, hvernig mælikvarðar geta betur endurspeglað raunverulega líðan og lífsgæði fólks og hvaða hlutverk stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur gegna í uppbyggingu velsældarhagkerfis.
Auk erinda verða vinnustofur og kynningar á verkfærum og verkefnum frá þátttökuríkjum og stofnunum.
Margir af helstu sérfræðingum heims á sviði velsældarhagkerfis flytja erindi á velsældarþinginu, meðal annars Elva Rakel Jónsdóttir forstjóri Festu og Ilona Kickbusch, stofnandi og forstjóri Global Health Center.
Þingið stendur yfir til föstudags og hægt er að nálgast nánari upplýsingar um dagskránna á heimasíðu Velsældarþingsins.