Hann var fljótur að hugsa, töframaðurinn sem var uppi á sviði að skemmta börnum og fjölskyldum þeirra þann 17. júní árið 2000 í Þorlákshöfn, þegar stór skjálfti reið yfir Suðurlandið. Sá fyrsti af mörgum sem áttu eftir að fylgja.
Eftir að jörðin nötraði og skalf undir fótum fólks greip töframaðurinn knái tækifærið og spurði börnin hvort töfrabragðið hans hefði ekki verið gott. Börnin tóku vitaskuld undir.
„Það var því fullorðna fólkinu sem var brugðið,“ lýsir Jóhanna Erla Ólafsdóttir, sem var viðstödd hátíðina með yngstu syni sína. Töframaðurinn uppi á sviði var leikstjórinn Óskar Jónasson, stundum kallaður Skari Skrípó.
Saga Jóhönnu er ein af nokkrum sem þegar hafa birst á vefnum Suðurlíf, sem er ný heimasíða fimm sveitarfélaga á Suðurlandi. Þar ætlar Rangárþing ytra að safna saman sögum fólks af jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. júní árið 2000. Sunnlenska greindi fyrst frá framtakinu.
Það var lán í óláni að skjálftinn stóri hefði komið á sjálfan þjóðhátíðardag okkar Íslendinga. Þetta sagði jarðskjálftafræðingurinn Ragnar Stefánsson heitinn í samtali við mbl.is fyrir fimm árum, þegar 20 ár voru liðin frá atburðinum.
„Það urðu engin slys á fólki sem heitið gæti. Það var heppni að flest fólk var úti við vegna hátíðarhalda 17. júní. Þannig að að því leyti fór þetta mjög vel en það varð víða mikið rask í jörðu og það varð heilmikið efnahagslegt tjón af þessum skjálfta,“ sagði skjálftafræðingurinn.
Dagurinn lifir þó enn í fersku minni margra enda ekki oft sem svo stór skjálfti ríður yfir.
Katrín var fimmtán ára gömul og bjó á Hellu þennan dag. Hún sat í íþróttahúsinu og var að selja inn í kvenfélagskaffið þegar skjálftinn varð.
„Ég man fyrst eftir drununum sem komu á undan og hversu lengi þær virtust endast. Svo kom höggið og allt fór af stað,“ segir í lýsingum hennar.
„Ég reyndi að standa upp en stóllinn kom með, skólaborðið fyrir framan mig var á fleygiferð og engin leið að hlaupa út. Það kom smá pása í mestu lætin sem gaf tækifæri til að reyna að byrja að hlaupa en svo fór allt á fleygiferð aftur. Þegar allt stoppaði loksins og allir gátu hlaupið út kom raunverulega sjokkið. Var þetta loksins sá stóri?“
Hún fann mömmu sína og fóru þær heim saman þar sem systir Katrínar var ein.
„Pabbi rauk af stað til að sinna sínum skyldum og sáum við lítið af honum næstu daga.“
Katrín lýsir því að jörðin hafi sífellt titrað undir fótum Sunnlendinga þennan dag.
„Um kvöldið reyndum við mamma að sofa í tjaldi úti í garði en jörðin virtist skjálfa nánast endalaust svo við gáfumst upp og fórum aftur inn. Það var ekki mikið sofið þá nótt.“
Hún segir næstu daga hafa einkennst af eftirskjálftum og kvíða yfir næsta stóra skjálfta, sem kom aðeins nokkrum dögum síðar.
Helena Pálsdóttir var í Vestmannaeyjum þennan eftirminnilega þjóðhátíðardag, þá 27 ára gömul. Hún var á heimili móðursystur sinnar þar sem halda átti skírnarathöfn.
Hún stóð á spjalli við frænda sinni í eldhúsinu þegar gestirnir urðu varir við svakalegar drunur. Veggirnir og gólfið undir gestunum byrjuðu svo að nötra.
Helena hugsaði fyrst með sér að titringurinn hlyti að vera vegna þungaflutninga.
„Í sömu andrá og hugsuninni sleppir hrópar húsbóndinn á heimilinu „Þetta er jarðskjálfti, allir út, allir út!!!“ Um leið jukust drunurnar og fólk kom hlaupandi úr öllum hornum hússins, sem er frekar stórt einbýlishús á tveimur hæðum í svokallaðri efri byggð þaðan sem útsýni er yfir alla byggðina, fjöllin og höfnina.“
Nágrannarnir voru að tínast út úr húsum sínum þegar einhver í hópnum hrópar og bendir í átt að Herjólsdal þar sem mikið dökkbrúnt rykský rís upp. Virðist það koma úr dalbotninum. „Það er byrjað að gjósa í dalnum,“ hrópaði sá er benti.
„Óttinn læstist um okkur þar sem við stóðum úti á hlaði á Fjólugötunni því við vissum öll að dalurinn var fullur af fólki sem var að taka þátt í 17. júní hátíðarhöldunum þar,“ lýsir Helena.
Annar bendir þá á fjallið Klif þar sem annað rykský rís upp og stærðarinnar grjóthnullungar hrynja niður.
„Eina örskotsstund héldum við flest að við værum að verða vitni að gosbyrjun,“ lýsir Helena. Segir hún fólkið hafa verið fullvisst um að manntjón hefði orðið á öðrum hvorum staðnum þar sem rykskýin mynduðust.
„Smá saman áttaði fólk sig nú á því að líklega hefði þetta nú verið stór jarðskjálfti en ekki byrjun á gosi.“
Gestunum og heimamönnum var mikið niðri fyrir. Var skjálftinn helsta umræðuefnið í skírnarveislunni sem haldin var þegar flestir höfðu jafnað sig.
„Barnið hlaut bæði skírn og nafngift og við hin fengum að upplifa dag sem við flest munum aldrei eða seint gleyma.“