Voru sannfærð um að eldgos væri að hefjast

Engin alvarleg slys urðu á fólki en tjón varð víða …
Engin alvarleg slys urðu á fólki en tjón varð víða á mannvirkjum og heimilum fólks. Mynd úr safni. mbl.is/Halldór Kolbeins

Hann var fljót­ur að hugsa, töframaður­inn sem var uppi á sviði að skemmta börn­um og fjöl­skyld­um þeirra þann 17. júní árið 2000 í Þor­láks­höfn, þegar stór skjálfti reið yfir Suður­landið. Sá fyrsti af mörg­um sem áttu eft­ir að fylgja.

Eft­ir að jörðin nötraði og skalf und­ir fót­um fólks greip töframaður­inn knái tæki­færið og spurði börn­in hvort töfra­bragðið hans hefði ekki verið gott. Börn­in tóku vita­skuld und­ir.

„Það var því full­orðna fólk­inu sem var brugðið,“ lýs­ir Jó­hanna Erla Ólafs­dótt­ir, sem var viðstödd hátíðina með yngstu syni sína. Töframaður­inn uppi á sviði var leik­stjór­inn Óskar Jónas­son, stund­um kallaður Skari Skrípó.

Saga Jó­hönnu er ein af nokkr­um sem þegar hafa birst á vefn­um Suður­líf, sem er ný heimasíða fimm sveit­ar­fé­laga á Suður­landi. Þar ætl­ar Rangárþing ytra að safna sam­an sög­um fólks af jarðskjálftun­um á Suður­landi 17. júní árið 2000. Sunn­lenska greindi fyrst frá fram­tak­inu.

Heil­mikið efna­hags­legt tjón

Það var lán í óláni að skjálft­inn stóri hefði komið á sjálf­an þjóðhátíðardag okk­ar Íslend­inga. Þetta sagði jarðskjálfta­fræðing­ur­inn Ragn­ar Stef­áns­son heit­inn í sam­tali við mbl.is fyr­ir fimm árum, þegar 20 ár voru liðin frá at­b­urðinum. 

„Það urðu eng­in slys á fólki sem heitið gæti. Það var heppni að flest fólk var úti við vegna hátíðar­halda 17. júní. Þannig að að því leyti fór þetta mjög vel en það varð víða mikið rask í jörðu og það varð heil­mikið efna­hags­legt tjón af þess­um skjálfta,“ sagði skjálfta­fræðing­ur­inn.

Dag­ur­inn lif­ir þó enn í fersku minni margra enda ekki oft sem svo stór skjálfti ríður yfir.

Borðið á fleygi­ferð og eng­in leið að hlaupa út

Katrín var fimmtán ára göm­ul og bjó á Hellu þenn­an dag. Hún sat í íþrótta­hús­inu og var að selja inn í kven­fé­lagskaffið þegar skjálft­inn varð. 

„Ég man fyrst eft­ir drun­un­um sem komu á und­an og hversu lengi þær virt­ust end­ast. Svo kom höggið og allt fór af stað,“ seg­ir í lýs­ing­um henn­ar.

„Ég reyndi að standa upp en stóll­inn kom með, skóla­borðið fyr­ir fram­an mig var á fleygi­ferð og eng­in leið að hlaupa út. Það kom smá pása í mestu læt­in sem gaf tæki­færi til að reyna að byrja að hlaupa en svo fór allt á fleygi­ferð aft­ur. Þegar allt stoppaði loks­ins og all­ir gátu hlaupið út kom raun­veru­lega sjokkið. Var þetta loks­ins sá stóri?“

Hún fann mömmu sína og fóru þær heim sam­an þar sem syst­ir Katrín­ar var ein.

„Pabbi rauk af stað til að sinna sín­um skyld­um og sáum við lítið af hon­um næstu daga.“

Katrín lýs­ir því að jörðin hafi sí­fellt titrað und­ir fót­um Sunn­lend­inga þenn­an dag. 

„Um kvöldið reynd­um við mamma að sofa í tjaldi úti í garði en jörðin virt­ist skjálfa nán­ast enda­laust svo við gáf­umst upp og fór­um aft­ur inn. Það var ekki mikið sofið þá nótt.“

Hún seg­ir næstu daga hafa ein­kennst af eft­ir­skjálft­um og kvíða yfir næsta stóra skjálfta, sem kom aðeins nokkr­um dög­um síðar.

Komu hlaup­andi úr öll­um horn­um húss­ins

Helena Páls­dótt­ir var í Vest­manna­eyj­um þenn­an eft­ir­minni­lega þjóðhátíðardag, þá 27 ára göm­ul. Hún var á heim­ili móður­syst­ur sinn­ar þar sem halda átti skírn­ar­at­höfn.

Hún stóð á spjalli við frænda sinni í eld­hús­inu þegar gest­irn­ir urðu var­ir við svaka­leg­ar drun­ur. Vegg­irn­ir og gólfið und­ir gest­un­um byrjuðu svo að nötra.

Helena hugsaði fyrst með sér að titr­ing­ur­inn hlyti að vera vegna þunga­flutn­inga. 

„Í sömu andrá og hugs­un­inni slepp­ir hróp­ar hús­bónd­inn á heim­il­inu „Þetta er jarðskjálfti, all­ir út, all­ir út!!!“ Um leið juk­ust drun­urn­ar og fólk kom hlaup­andi úr öll­um horn­um húss­ins, sem er frek­ar stórt ein­býl­is­hús á tveim­ur hæðum í svo­kallaðri efri byggð þaðan sem út­sýni er yfir alla byggðina, fjöll­in og höfn­ina.“

Ryk­ský og grjót­hrun bentu til goss

Ná­grann­arn­ir voru að tín­ast út úr hús­um sín­um þegar ein­hver í hópn­um hróp­ar og bend­ir í átt að Herjóls­dal þar sem mikið dökk­brúnt ryk­ský rís upp. Virðist það koma úr dal­botn­in­um. „Það er byrjað að gjósa í daln­um,“ hrópaði sá er benti.

„Ótt­inn læst­ist um okk­ur þar sem við stóðum úti á hlaði á Fjólu­göt­unni því við viss­um öll að dal­ur­inn var full­ur af fólki sem var að taka þátt í 17. júní hátíðar­höld­un­um þar,“ lýs­ir Helena.

Ann­ar bend­ir þá á fjallið Klif þar sem annað ryk­ský rís upp og stærðar­inn­ar grjót­hnull­ung­ar hrynja niður.

„Eina ör­skots­stund héld­um við flest að við vær­um að verða vitni að gos­byrj­un,“ lýs­ir Helena. Seg­ir hún fólkið hafa verið full­visst um að mann­tjón hefði orðið á öðrum hvor­um staðnum þar sem ryk­ský­in mynduðust.

„Smá sam­an áttaði fólk sig nú á því að lík­lega hefði þetta nú verið stór jarðskjálfti en ekki byrj­un á gosi.“

Gest­un­um og heima­mönn­um var mikið niðri fyr­ir. Var skjálft­inn helsta umræðuefnið í skírn­ar­veisl­unni sem hald­in var þegar flest­ir höfðu jafnað sig. 

„Barnið hlaut bæði skírn og nafn­gift og við hin feng­um að upp­lifa dag sem við flest mun­um aldrei eða seint gleyma.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert