Brást illa við spurningu þingmanns en svaraði Rúv

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (fyrir miðju) dómsmálaráðherra á Alþingi.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (fyrir miðju) dómsmálaráðherra á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir dóms­málaráðherra brást illa við spurn­ingu Sig­ríðar Á. And­er­sen, þing­manns Miðflokks­ins, á Alþingi í dag, um hvenær lög­regla og embætti héraðssak­sókn­ara, sem heyra und­ir ráðherra, hefðu fengið vitn­eskju um það mikla magn gagna sem lak frá embætti sér­staks sak­sókn­ara.

Þrá­sp­urði ráðherra

Sig­ríði fannst hún ekki hafa fengið svar við spurn­ing­unni og þrá­sp­urði ráðherra í nokkr­um ræðum og naut þar einnig liðsinn­is fleiri þing­manna úr röðum stjórn­ar­and­stöðunn­ar.

Sig­ríður benti svo á það síðar að Þor­björg Sig­ríður hafi svarað spurn­ing­unni fyr­ir fram­an upp­töku­vél­ar Rúv, Sig­ríði til mik­ill­ar furðu. Kallaði Sig­ríður eft­ir því að ráðherr­ar í rík­is­stjórn sýndu þing­inu meiri virðingu en raun bar vitni.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins.
Sig­ríður Á. And­er­sen, þingmaður Miðflokks­ins. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd taki málið upp

Karl Gauti Hjalta­son, ann­ar þingmaður Miðflokks­ins, var einn þeirra sem tók und­ir með Sig­ríði og sagði hann áríðandi að stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd fundi um þetta ný­upp­komna leka­mál sem allra fyrst.

Bergþór Ólason, flokks­bróðir Karls, sagði til­hneig­ingu ráðherra því miður hafa verið þessa á þing­inu og bað hann for­seta Alþing­is að hjálpa þing­heimi að gæta að virðingu þings­ins.

Ann­ar flokks­bróðir þeirra, Þor­steinn Sæ­munds­son, sagði eðli­legt að hlé yrði gert á þing­fundi og fund­ur hald­inn um leka­málið í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd.

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði það því miður hafa sýnt sig und­an­farn­ar vik­ur að rík­is­stjórn­in virðist virða þingið að vett­ugi. Óskaði hún eft­ir því að for­seti hefði milli­göngu um það að rík­is­stjórn­in muni fram­veg­is bera virðingu fyr­ir þing­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert