Miklir vatnavextir voru í nokkrum ám og fljótum á Norðurlandi í gær og flæddi yfir veg í Bárðardal.
Á gröfum Veðurstofunnar má sjá hvernig vatnsflæði í nokkrum ám á Norðurlandi stórjókst í gærkvöldi. Mest jókst flæðið í Skjálfandafljóti en þar fór vatnsrennsli upp í 800 rúmmetra á sekúndu þegar mest lét. Degi áður hafði flæðið verið um 160 metrar á sekúndu.
Sömuleiðis voru miklir vatnavextir í Austari-Jökulsá og Héraðsvötnum í Skagafirði.
Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þessa miklu vatnavexti megi rekja til leysinga en mikil hlýindi hafa verið á Norðausturlandi síðustu daga.
„Þetta tengist úrkomunni sem hefur verið síðustu daga og hlýindunum fyrir norðan. Í sjálfu sér tengist þetta hefðbundnum vorleysingum en þetta varð dálítið mikið þarna í Skjálfandafljóti sérstaklega. Aðstæður valda því að það bráðnar mikið af snjó og berst í árnar á þessu svæði.“
Ingibjörg bætir við að rennslið hafi náð hámarki í kringum miðnætti í gær og að nú séu árnar á niðurleið.
„Þetta er á niðurleið núna og svo er útlit fyrir að það fari að kólna, svo við búumst frekar við því að þetta fari að jafna sig næstu daga.“
Spurð hvort aðeins sé um að ræða venjubundnar leysingar segir Ingibjörg: „Leysingar á vori eru mjög eðlilegar og gerast árlega en þetta var kannski meira en við höfum séð síðustu ár, sérstaklega í Skjálfandafljóti og Austari-Jökulsá.“
Almannavörnum og viðbragðsaðilum á svæðinu var gert viðvart um stöðuna í gærkvöldi en vatn úr Skjálfandafljóti flæddi yfir veg í Bárðardal.
„Það flæddi og flæðir enn yfir veginn suður á sandabrotunum, í austanverðum Bárðardal,“ segir Jón Ingólfsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, og bætir við að nú þegar flæðið sé farið að ganga niður sé Vegagerðin að gera sig líklega til að fara og sinna viðhaldi á veginum.
„Við vorum þarna í nótt, það flæddi austur yfir veginn syðst í söndunum og rann svo meðfram honum austan við og yfir aftur til baka. [...] Það rennur austur yfir hann á einum stað og til baka á tveimur.“
Mun þurfa mikið viðhald?
„Já, við munum þurfa að keyra helling í hann. [...] Við förum ekki í þetta alveg strax á meðan það er svona mikið vatn á ferðinni en um leið og fer að sjatna í þessu þá reynum við að gera eitthvað.“
Að lokum segir Ingi að sem betur fer sé vegurinn ekki mikið farinn á þessum árstíma.
„Hann er farinn helling á sumrin þegar ferðamennirnir koma en sem betur fer er lítið um ferðamenn á þessum árstíma. Þetta er heimafólkið sem er að fara veginn og það kann á þetta og veit hvað það er að gera.“