Geðlæknar þeir sem komu fyrir Héraðsdóm Austurlands í máli héraðssaksóknara gegn Jóni Þór Dagbjartssyni í dag voru á einu máli um að Jón Þór sé sakhæfur, bæði gagnvart 15. og 16. grein almennra hegningarlaga.
Sögðu þeir hann ekki hafa verið í geðrofi þegar hann réðst að Hafdísi Báru Óskarsdóttur, fyrrverandi sambýliskonu sinni, í tvígang í október á síðasta ári.
Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í Héraðsdómi Austurlands í dag.
Ákvæði 15. greinar kveða á um að þeim sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum, skuli ekki refsað.
Ákvæði 16. greinar kveða á um að þeim sem fremja verknað og eru andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en ástandið þó ekki á eins háu stigi og 15. gr. kveður á um, skuli refsa gerandanum fyrir brotið, ef ætla megi eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað að refsing geti borið árangur. Refsinguna skuli gerandinn taka út á viðeigandi stofnun.
Jón Þór er sakaður um að hafa 13. október haldið Hafdísi Báru niðri, káfað á henni og rifið hana úr fötum. Þremur dögum síðar á hann að hafa veist að henni með rúllubaggateini og notað hann til að stinga hana í kviðinn og þrengja að hálsi hennar. Árásin átti sér stað í skemmu við bæinn Hámundastaði IV í Vopnafirði.
Einn geðlæknanna taldi þrjár ástæður hugsanlegar fyrir því að Jón Þór myndi ekki eftir árásinni. Hann myndi ekkert vegna áhrifa efna, hann gerði sér upp minnisleysi eða glími við hugrof, einkenni sem geti komið undir miklu álagi og sé oft tengt áfallastreituröskun. Það væri líklegasta skýringin. Hann taldi Jón Þór sakhæfan.
Annar geðlæknir sagði Jón Þór vissulega hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum og að hann glími við áfallastreituröskun en þó sé hann sakhæfur. Hann sé ekki að jafnaði hættulegur öðrum en þurfi stuðning og meðferð vegna þunglyndis. Geðlæknirinn sagði hann ekki hafa dæmigerð einkenni geðrofs.
Þriðji geðlæknirinn sagði að ekki hafi verið um geðrof að ræða, ruglástand, ofskynjanir eða ranghugmyndir. Hann hafi einfaldlega misst stjórn á sér. Taldi hann Jón Þór sakhæfan rétt eins og hinir.
Sálfræðingur sem hefur haft Hafdísi Báru til meðferðar um tíma sagði áfallameðferð hennar ekki lokið og erfitt að segja hversu lengi hún mun standa yfir. Sagði sálfræðingurinn að einkenni áfallastreitu gætu alltaf verið viðvarandi þótt takist að lifa með þeim. Segir hann áætlað að Hafdís Bára nái þokkalegum bata með áframhaldandi meðferð og sjálfsvinnu.