Litlar kerfislægar hömlur voru á því hvernig starfsfólk sem sem hafði aðgang að upptökum úr hlerunum hjá embættis sérstaks saksóknara fór með þau gögn sem aflað var með hlustunum á eftirhrunsárunum.
Eins og fram kom í Kastljósi höfðu fyrrverandi starfsmenn embættisins, þeir Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, stofnendur PPP, í sínum fórum mikið magn af upptökum sem þeir höfðu afritað hjá embætti sérstaks saksóknara.
Jón Óttar hafði umsjón með símahlustunum fyrir embættið í þeim málum sem hann kom að sem rannsakandi.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og fyrrum sérstakur saksóknari, telur að þeir Jón Óttar og Guðmundur hafi ekki notið liðsinnis neins úr embætti sérstaks saksóknara þegar þeir öfluðu gagna í persónulega þágu. Þeir hafi haft aðgang að gögnum í þeim málum sem þeir voru að rannsaka á eftirhrunsárunum. Ólafur hefur ekki skýringar á því hvernig þeim tókst að afla gagna úr öðrum málum.
Sjálfir héldu þeir því fram að þeir hefðu fengið heimild til að veita skiptastjóra gögn í Milestone-málinu svokallaða sem þeir unnu svo skýrslu upp úr fyrir skiptastjóra í málinu. Það mál var uppspretta að sakamálarannsókn sem ríkissaksóknari rannsakaði en hann lét málið niður falla.
Hann segir vert að velta upp sinni ábyrgð sem yfirmaður stofnunarinnar í gagnalekanum en að endingu sé það svo að erfitt sé að verjast því þegar lögreglumenn brjóta trúnað.
Voru engar hömlur á því hvernig starfsfólk gat farið með gögnin úr þeim málum þar sem hlustað var á fólk?
„Hömlurnar eru alltaf þannig að þú átt ekki að gera þetta. Það eru mjög ströng fyrirmæli um það hvernig þú átt að umgangast gögnin og þetta er hlutur sem þú átt ekki að gera. En ef aðili ætlar að taka gögn með ólöglegum hætti. Þá finnur hann leiðir til þess,“ segir Ólafur.
En nú eru þessi gögn vistuð beint á annað tæki?
„Já í dag eru þessi gögn vistuð á ákveðnu svæði,“ segir Ólafur og gefur í skyn að verklag hafi breyst.
Eru líkur á því að fleiri hafi tekið þátt í þessu?
„Nei, við sjáum það ekki fyrir okkur.“
Var það þannig að hver og einn sem hafði aðgang að hlustunargögnum í öllum málum gat vistað þau ef honum sýndist svo?
„Ef þú varst að vinna að tilteknu máli er varðaði þessa hlustun, þá hafðir þú aðgang að hlustuninni.“
„Þetta voru langmest gögn úr Milestone/Sjóvá-málinu,“ segir Ólafur og vísar í þau gögn sem Jón Óttar og Guðmundur höfðu undir höndum.
En þeir voru líka með gögn úr öðrum málum. Hvernig fá þeir aðgang að þeim?
„Ég get í sjálfu sér ekki svarað því. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þeir báru sig að í því. En þá er það eitthvað sem rannsókn þar til bærra aðila mun að einhverju leyti lúta að,“ segir Ólafur en ríkissaksóknari er með tvö mál tengd þeim Óttari og Guðmundi til skoðunar.
Er hægt að treysta því að búið sé að eyða öllum gögnum í tengslum við mál frá þessum tíma?
„Já, það er búið að eyða öllum þessum gögnum. Þeim símtölum sem eru ótengd málunum á að vera eytt,“ segir Ólafur.
Að sögn Ólafs á að eyða slíkum gögnum þegar endanlegur dómur er fallinn.
Er ekki mögulegt að stór hópur fólks muni fara í bótamál vegna þessa?
„Það verður að koma í ljós en það er hugsanlegt. Nú er mjög stutt um liðið af því sem kom fram og flestir eru líklega enn að melta það sem fram kom í gærkvöldi,“ segir Ólafur Þór.
Líður þér eins og þú berir einhverja ábyrgð í þessu máli sem yfirmaður stofnunarinnar?
„Auðvitað fer maður yfir verklagið með gagnrýnum huga. En þarna er fyrst og fremst grunur um að trúnaður hafi verið brotinn og það er býsna erfitt að verjast því ef menn ætla að fara í það,“ segir Ólafur.