„Staðan er mjög erfið og þung. Markaðirnir eru ákaflega daprir og verðið er mjög lágt og hefur lækkað það sem af er þessu ári. Við erum að glíma við tiltölulega háan kostnað, verksmiðjan er frekar ný, en aðalmálið er að markaðirnir eru skelfilegir.“
Þetta segir Kári Marís Guðmundsson, forstjóri PCC BakkaSilicon hf. á Húsavík, í samtali við Morgunblaðið. Fyrirtækið framleiðir kísilmálm sem seldur er til útlanda.
Hann gekk á fund byggðarráðs Norðurþings um sl. mánaðamót og gerði grein fyrir erfiðri stöðu fyrirtækisins. Í fundargerð byggðarráðs er ítrekuð sú afstaða þess að starfsemi PCC BakkaSilicon sé mikilvæg fyrir samfélagið og að rekstur sveitarfélagsins byggist að stórum hluta á beinum og óbeinum tekjum sem starfsemin skili til Norðurþings.
„Ef ekkert batnar á næstu vikum er ekkert annað í stöðunni en að klára það hráefni sem fyrir liggur og taka síðan einhvers konar rekstrarstöðvun, en engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin um það. En útlitið er mjög dökkt,“ segir Kári Marís.
Kári Marís segir að eftir endurskipulagningu á rekstrinum í byrjun þessa árs einbeiti fyrirtækið sér nú að kjarnastarfsemi sinni. Í kjölfar endurskipulagningarinnar hafi verið unnt að fækka starfsfólki, en frá áramótum hafa 10 starfsmenn látið af störfum og fækkað um allt að 20 stöðugildi. Starfsmenn eru nú 130. Þar er þó ekki allt upp talið því fyrirtækið skapar einnig afleidd störf á svæðinu, en verktakar sinna ýmsum verkefnum fyrir fyrirtækið. Aðeins annar tveggja ofna sem PCC BakkiSilicon býr yfir er nú í rekstri.
Hann nefnir að fyrirtækinu hafi borist beiðni frá Landsvirkjun sl. haust um að búa sig undir skerðingu á raforkuafhendingu sem brugðist hafi verið við með því að taka annan ofn fyrirtækisins úr rekstri, sem gert var fyrri hluta vetrar. Síðan fékk fyrirtækið tilkynningu um að ekkert yrði af skerðingunni.
„Þá var skaðinn skeður, markaðirnir voru farnir niður á við og sölusamningar gengnir úr skaftinu. Við keyrðum því áfram á einum ofni og markaðsaðstæður hafa bara versnað síðan, ef eitthvað er,“ segir Kári Marís.
„Útlitið er ákaflega erfitt. Tollastríð Trumps hefur ekki hjálpað okkur,“ segir Kári Marís og nefnir að hár kostnaður og samkeppni við Kína hjálpi ekki heldur.