Til stendur að taka upp greiðslur til stjórnarmanna í Blaðamannafélagi Íslands vegna fundarsetu, en málið verður tekið fyrir á félagsfundi. Þetta staðfestir Blaðamannafélagið í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Lagt verður til við félagsmenn að stjórnarmenn fái 25 þúsund krónur greiddar fyrir hvern sóttan fund og að greitt verði tvisvar á ári með innleggi á bankareikninga.
Í fundargerð stjórnar Blaðamannafélags Íslands frá því í febrúar kemur fram að fyrir fundinum hafi legið að ræða greiðslu fyrir fundarsetu, en umræðu um málið var frestað á þeim tíma. Nýrri fundargerðir liggja ekki fyrir og spurðist blaðið því fyrir um málið.
Í svari Blaðamannafélagsins kemur fram að stjórnarmenn hafi frá árinu 2018 fengið inneignarkort í lok árs sem síðustu ár hafi verið upp á 150 þúsund krónur.
„Stjórn telur þetta fyrirkomulag ógagnsætt og vill því skoða að taka upp sama hátt á greiðslum fyrir stjórnarsetu og tíðkast hjá öðrum stéttarfélögum,“ segir í svarinu.
Fram kemur að miðað verði við að stjórnarfundir verði að jafnaði um tíu á ári og mega stjórnarmenn því gera ráð fyrir að fá 250 þúsund krónur fyrir starfsárið, samþykki félagsfundur fyrirkomulagið. Það er nokkur hækkun frá því sem fyrir var í formi inneignarkorta, en í svari félagsins segir að stjórn hafi í þessum efnum falið framkvæmdastjóra að kanna hvernig önnur félög stæðu að þóknun fyrir stjórnarsetu.
„Samkvæmt athugun virðist algengt að stéttarfélög greiði á bilinu 25-50 þúsund krónur fyrir hvern fund. Sum greiða þó fasta mánaðarlega þóknun, sem er þá hærri. Misjafnt er hvort greitt er fyrir undirbúningstíma. Einnig er misjafnt hvort formaður fái greitt fyrir stjórnarsetu.“
Greiðslur til stjórnarmanna verði skattskyldar eins og önnur laun og miðist við að stjórnarmenn sitji staðfund. Þó verði heimilt að greiða fyrir setu á fjarfundi við sérstakar aðstæður. Stjórnarmenn, sem jafnframt eru á launaskrá félagsins, munu ekki fá greitt fyrir fundarsetu og ekki verður greitt aukalega fyrir undirbúning eða aðra vinnu.
Blaðið spurðist einnig fyrir um vitundarherferð þá er Blaðamannafélagið réðst í á síðasta ári undir yfirskriftinni Blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari. Spurðist blaðið fyrir um kostnað vegna herferðarinnar og mælingar á árangri.
Kostnaður við herferðina á síðasta ári nam 18,7 milljónum króna. Fram kemur í svari félagsins að fjármunir þeir sem Félag fréttamanna á RÚV kom með inn í félagið hafi verið nýttir til þess að standa undir þeim kostnaði og þannig hafi herferðin ekki verið kostuð af rekstrarfé.
Kostnaðurinn skiptist þannig að 2,8 milljónir voru vegna verkefnastjórnunar og 7,8 milljónir vegna framleiðslu auglýsinga fyrir sjónvarp, útvarp dagblöð, vefborða, samfélagsmiðla og skilti.
Þá nam kostnaður vegna birtinga 7,1 milljón króna. Af því runnu 1,6 milljónir til Rúv., 1,3 milljónir til Árvakurs og 1 milljón til Sýnar. Birtingum var stýrt af birtingarhúsi með þeim fyrirmælum að eingöngu mætti greiða fyrir birtingar á íslenskum auglýsingamiðlum.
Loks var greidd hálf milljón vegna gerðrar tónlistar og hálf milljón fyrir höfundarrétt vegna notkunar ljósmynda frá Morgunblaðinu.
Ekki virðist sem mælanleg markmið hafi verið sett áður en herferðin hófst en fram kemur í svari við spurningu um mælanleg markmið að markmið herferðarinnar hafi verið að auka skilning almennings og stjórnvalda á hlutverki og mikilvægi blaðamennsku og öflugra fjölmiðla í samfélaginu.
Þá kemur fram að viðhorf til blaðamanna og fjölmiðla hafi verið mæld í könnun sem Gallup vann fyrir félagið í fyrravetur í tengslum við herferðina. Stefnt sé að því að vinna sambærilega könnun á næstunni.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.