Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þrjá menn í fangelsi, þar af einn í skilorðsbundið fangelsi, fyrir að pynta mann í tvo tíma sem þeir frelsissviptu og héldu í húsnæði í Vatnagörðum í janúar 2023. Tóku þeir meðal annars árás sína á manninn upp.
Eru tveir menn, sem nefndir eru X og Y m.a. dæmdir fyrir frelsissviptingu og kynferðisbrot. Þá er X einnig dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot.
Er X dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, Y dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar og maður sem nefndur er Z dæmdur í skilorðsbundið sextán mánaða fangelsi.
Málið kom upp aðfaranótt sunnudagsins 29. janúar árið 2023.
Tilkynning barst lögreglu laust eftir fjögur um nóttina og stuttu síðar barst tilkynning frá brotaþola sjálfum um að hann hefði verið stunginn í höndina og honum væri að blæða út.
Lögregla fór á vettvang og fann brotaþola alblóðugan á gangstétt. Maðurinn vildi ekki gefa upp í fyrstu hverjir hefðu veitt honum áverkana en sagðist feginn að þeim hefði ekki tekist að nauðga honum.
X og Y voru ákærðir fyrir stórfellda líkamsárás, hótanir, brot gegn blygðunarsemi, kynferðislega áreitni og ólögmæta nauðung. Sá þriðji, sem nefndur er Z, var ákærður fyrir líkamsárás, kynferðislega áreitni og látið fyrir farast að koma manni til bjargar á meðan frelsissviptingunni stóð.
Á bráðamóttöku lýsir maðurinn því fyrir lögreglu að hann hefði verið frelsissviptur um nóttina og ekki komist út fyrr en um klukkan fimm um morguninn. Hann sagðist hafa verið haldið inni í herbergi og beittur margháttuðu ofbeldi þar. Í næsta herbergi voru vopn geymd.
Maðurinn sagðist hafa verið stunginn með rauðum hníf í hendina. Þá voru rispur á baki hans, maga og bringu, eftir hníf og glerbrot. Þá höfðu mennirnir lamið hann með belti og hamri, og sparkað í hann.
Þurfti að sauma nítján spor í upphandlegg mannsins á bráðamóttökunni.
Sagði brotaþoli mennina X og Y hafa verið að verki en þeir vildu fá tvær milljónir króna frá honum.
Maðurinn sagðist hafa sloppið úr prísundinni, farið að næsta húsi þar sem hann braut rúðu með steini svo öryggiskerfið færi í gang og hann fengi hjálp. Mennirnir fundu hann þó aftur og tóku inn í bíl. Maðurinn slapp þá í annað sinn og náði þá að hringja í lögreglu og kalla eftir aðstoð.
Brotaþoli sagði þriðja manninn hafa verið viðstaddann og lýsti honum sem geranda.
Y og X voru handteknir í framhaldinu. X var þá að þrífa á vettvangi í húsnæðinu í Vatnagörðum.
Var hann þar að skúra baðherbergið þaar sem blóðkám var á veggjunum. Lyklar að jeppa fundust í fórum hans, en bíllinn var sá sami og lagt var fyrir utan húsnæðið, en töluvert af blóði var í aftursæti bílsins.
Við rannsókn fundust upptökur úr myndavélum sem sakborningarnir höfðu komið fyrir í herberginu áður en þeir beittu manninn ofbeldi. Stærstur hluti atburðarásarinnar sést á upptökunum.
Þá sést einnig, á öðrum öryggismyndavélum, þegar brotaþoli reynir að flýja en mennirnir ná honum.
Fyrir dómi sagðist X kannast við málið og sagðist hafa verið vinur brotaþola. Hann neitaði aðkomu að ofbeldinu og sagðist ekki vera ofbeldismaður. Sagðist hann hafa sett myndavélarnar upp að beiðni ákærða Y, sem hafi ætlað að ræða skuld við brotaþola. Sagðist X sjálfur hafa óttast ofbeldi af hálfu Y.
Upptökur þykja sýna að X hafi verið fullur þátttakandi í skipulagi og framgangi atburða. Þó hann hafi látið Y um ofbeldið á meðan hann fylgdist með þá tók hann þátt í að binda brotaþola og skipaði hinum að hlýða.
Y játaði háttsemina sem sást á upptökunum. Sagðist hann hafa verið æskuvinur brotaþola, sem hann sagði hafa stolið fíknefnum og skuldað sér hálfa milljón króna.
Sagðist Y aðeins ætlað að hræða brotaþola.
Z sagðist kannast við sjálfan sig á upptöku úr herberginu í Vatnagörðum. Hann sagðist ekkert tengjast atvikum málsins. Hann hafi aðeins verið beðinn um að fara inn í herbergið og hræða brotaþola. Kannaðist hann við að hafa rekið fótinn í rass hans þegar búið var að gyrða niður um hann.
Mennirnir voru allir dæmdir í fangelsi, en Z aðeins í skilorðsbundið fangelsi.
Þá var sá sem nefndur er X í dómnum einnig ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots í júní árið 2021 með því að hafa reynt að taka við 529,34 grömmum af metamfetamín kristöllum. Fíkniefnin voru falin í gjafapakka sem innihélt skjalamöppu, en pakkinn var póstlagður með DHL flutningafyrirtækinu og kom hann hingað frá Malaví.
Lögreglan lagði hald á sendinguna. Þegar ákærði taldi sig vera að sækja sendinguna á bensínstöð, þar sem lögreglumaður hafði dulbúið sig sem starfsmann DHL, var hann handtekinn.
Var ákærði einnig með í úlpuvasa sínum 28 stykki af oxycodone töflum. Var hann einnig ákærður fyrir það brot.
Þá var maðurinn ákærður fyrir peningaþvætti.
X játaði brotin en kvaðst þó einungis hafa verið hlutdeildarmaður í fíkniefnainnflutningnum. Sagðist hann þá hafa haldið að Oxycontin væri í sendingunni en ekki metamfetamín. Er það mat dómsins að ákærði hefði tekið þátt í skipulagningu innflutningsins með því að heimila notkun nafns síns og heimilisfangs sem viðtakanda og að honum hefði verið ljóst að um ólögleg fíkniefni væri að ræða. Var hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök.