Samkvæmt nýrri íslenskri kynslóðamælingu kemur fram að Íslendingar telja heilsu og vellíðan mikilvægari en aðgerðir í loftslagsmálum. Ungt fólk vill aukna velsæld samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sem voru birtar á Velsældarþingi í Hörpu.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsu hjá Embætti landlæknis og fundarstjóri Velsældarþingsins, kynnti niðurstöður úr nýrri íslenskri kynslóðamælingu á Velsældarþingi í Hörpu í morgun. Könnunin var unnin af Prósent.
Niðurstöðurnar benda til þess að Íslendingar telji heilsu og vellíðan, frið og réttlæti og jöfnuð mikilvægustu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að fylgja eftir í íslensku samfélagi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 markmið sem miða að því að bæta samfélög, vernda jörðina og tryggja frið og velsæld fyrir alla fyrir árið 2030.
Í könnunni voru þátttakendur beðnir um að velja þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem þeir telja mikilvægast að leggja áherslu á í íslensku samfélagi. Niðurstöðurnar sýna fram á það að heilsa og vellíðan sé mikilvægasta heimsmarkmiðið og má sjá mun á viðhorfum meðal kynslóða.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar segja 48% Z-kynslóðarinnar að heilsa og vellíðan sé mikilvægasta heimsmarkmiðið. Z-kynslóðin samanstendur af þeim sem fæddir eru á árunum 1997-2010.
Árið 2021 voru aðgerðir í loftslagsmálum það heimsmarkmið sem flest sem tilheyra Z-kynslóðinni töldu mikilvægast eða um 59%. Tveimur árum síðar urðu miklar breytingar en þá var heimsmarkmiðið heilsa og vellíðan oftast valið og aðgerðir í loftslagsmálum féllu þá í fjórða sæti.
Öllum kynslóðum nema uppgangskynslóðinni fannst heilsa og vellíðan vera mikilvægasta markmiðið. Uppgangskynslóðin sem samanstendur af þeim sem fæddir eru á árunum 1946-1964, taldi frið og réttlæti vera mikilvægasta heimsmarkmiðið. Allar kynslóðirnar áttu það sameiginlegt árið 2021 að aðgerðir í loftslagsmálum væru mikilvægastar. Nú telja flestir slíkar aðgerðir ekki vera jafn mikilvægar.
Þetta var í þriðja sinn sem kynslóðamælingin var framkvæmd og svöruðu 2.500 manns könnuninni.