Ungur maður gekk í sjóinn við Kirkjusand í Reykjavík í seinni hluta marsmánaðar. Drengurinn var á einhverfurófi og hafði verið veikur í á annað ár. Þrátt fyrir ítrekaðar skipulagðar leitartilraunir hefur hann ekki enn komið í leitirnar.
Móðir drengsins segir að hann hefði verið greindur með Asperger-heilkenni ef sú þroskaröskun væri enn notuð. Í dag séu börn eins og Hjalti Snær Árnason, sem séu vel fúnkerandi og með mikinn vitsmunalegan þroska, en fóta sig ekki í þessu venjulega samfélagi, einfaldlega greind á einhverfurófi.
Hjalti Snær hefði orðið 23 ára á morgun ef hann hefði ekki þurft að láta í minni pokann fyrir veikindum sínum. Að því tilefni mun fjölskylda Hjalta Snæs hrinda af stað styrktarverkefni.
Draumur fjölskyldunnar er að hægt verði að setja á stofn einhvers konar sjálfbært samfélag sem væri fyrirbyggjandi fyrir ungt fólk í sporum Hjalta Snæs. Fólk sem hafi sterka tengingu við náttúruna og hefði meiri möguleika á endurhæfingu í slíku umhverfi en venjulegu stofnana- og spítalaumhverfi. Það hefði verið úrræði sem hefði passað Hjalta Snæ vel. Þau vilja að saga hans hjálpi öðrum í hans sporum.
Gerður Ósk, móðir Hjalta, segir í samtali við mbl.is að á Akureyri sé hvergi að fá þjónustu fyrir fólk í sporum Hjalta Snæs. Enginn viti hvað eigi að gera fyrir fólk í hans sporum og eina svarið séu lyf.
Engin endurhæfing sé á Akureyri og ekkert sem tekur við eftir að fólk er útskrifað af geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Gerður segir mjög algengt að börn í stöðu Hjalta Snæs fari í geðrof um tvítugt og að einhverfa skarist mikið við geðklofa. Sú varð einmitt raunin með Hjalta Snæ, sem hefur barist við sín veikindi undanfarin tvö ár, sérstaklega.
Hjalti Snær fékk inni á Laugarási – snemmíhlutun fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma. Sú þjónusta hentaði Hjalta Snæ að mörgu leyti en alls ekki öllu og segir Gerður hann einfaldlega hafa komist þar inn of seint.
Telur hún þó að ef ástand hans hefði verið betra þegar hann komst inn á Laugarás hefði það getað breytt miklu og segir að úrræði á borð við Laugarás á Akureyri hefði bjargað syni sínum.
Gerður segir Hjalta Snæ hafa kallað ítrekað á hjálp en einhvern veginn eins og fólk hafi ekki heyrt. Segir hún engan hafa sýnt syni sínum áhuga og hann hafi einhvern veginn ekki alltaf fundið tilgang.
Fjölskylda Hjalta bíður fjölskyldu og vinum sínum og vinum Hjalta sem og öllum sem hafa tengingu við einhverfu til samverustundar í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit á morgun klukkan 20.
Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar og þá verður varningur til sölu en allur ágóði rennur í styrktarverkefni fjölskyldu Hjalta Snæs. Sviðið verður opið og er fólki boðið að troða upp.
Opnaður hefur verið styrktarreikningur, sem er skráður að sinni á Gerði Ósk, móður Hjalta:
Reikningsnúmer: 0526-14-201214
Kennitala: 050578-5779