Til stóð að ljúka ætti framkvæmdum í lok sumars á leikskólanum Grandaborg í Vesturbæ Reykjavíkur. Tafir hafa hins vegar orðið á framkvæmdum og er nú stefnt að því að opna leikskólann aftur í desember. 25 börn höfðu þegar fengið úthlutað leikskólaplássi á Grandaborg næsta haust.
Reykjavíkurborg segir tafir hafa orðið vegna óviðráðanlegra orsaka en aðalverktaki framkvæmdanna lenti í rekstrarerfiðleikum og stöðvaðist verkefnið óvænt. Reykjavíkurborg hefur unnið að samningum við þá undirverktaka sem komið hafa að framkvæmdunum.
Í bréfi borgarinnar sem barst mbl.is segir að fundin verði lausn fyrir þau 25 börn sem hefðu fengið pláss í leikskólanum næsta haust. Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt segja til um hvert börnin verði send. Það sé persónubundið og verði ákveðið í samráði við foreldrana.
Grandaborg var lokað 1. október 2022 og hófust viðgerðir 18 mánuðum síðar eða í apríl 2023. Leikskólanum var lokað vegna þess að skólplögn undir húsinu fór í sundur og mengun greindist í jarðvegi.
Foreldrar barna fengu upplýsingabréf þegar leikskólanum var lokað árið 2022 og kom þar fram að nauðsynlegt væri að fjarlægja allan jarðveg og athuga hvort mengun hafi mögulega borist í loftræstikerfi hússins.
Í bréfi borgarinnar kom fram að mikið hafi verið um veikindi starfsfólks leikskólans og að fyrstu vísbendingar um slæma innvist hafi komið fram sumarið 2021. Börnin sem voru í leikskólanum á þessum tíma voru send á þrjá staði; á Ævintýraborgir við Nauthólsveg, í Kringluna og á Ævintýraborgir við Eggertsgötu.
Einnig stendur til að loka leikskólanum Hagaborg í haust. Fimm leikskólar af sjö verða starfrækir í vetur í Vesturbænum.