Formaður borgarráðs varð við beiðni sjálfstæðimanna og frestaði auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi bensínstöðvarlóðarinnar við Birkimel 1, en þar eru áform um nýja blokk.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir málið hafa verið stöðvað í borgarráði vegna þess að mótmæli frá Háskóla Íslands fylgdu ekki með gögnum málsins, auk þess sem samgöngumat vantaði og ekki búið að breyta aðalskipulagi.
„Þessi fyrirhugaða nýja blokk við Birkimelinn er gott dæmi um það hvernig ofurþétting og gjafagjörningur til olíufélaga ýtir til hliðar öllum öðrum sjónarmiðum, gildum og hefðum í skipulagi og umhverfismótun. Hér á að taka ofurþéttingu og gróðasjónarmið fram yfir þróunaráætlun Háskóla Íslands og í andstöðu við helstu menningar- og fræðslustofnanir á svæðinu. Svæðið milli Birkimels og Suðurgötu, Hringbrautar og Hagatorgs hefur um áratugaskeið verið talið helgunarsvæði fyrir helstu menningarstofnanir þjóðarinnar,“ segir Marta.
Í júlí 2024 barst Einari Þorsteinssyni þáverandi borgarstjóra bréf frá Háskóla Íslands þar sem því var eindregið andmælt að íbúðablokk með 42 íbúðum yrði byggð á þjónustulóð sem Háskólinn telji framtíðarþróunarreit fyrir háskóla og menningarstarfsemi.
Marta segir að bréfið hafi ekki fundist í gögnum Borgarskjalasafns og hún hafi fengið það með öðrum leiðum.
„Það bréf hefur legið á skrifstofu borgarstjóra í tæpt ár og var ekki kynnt borgarráðsfulltrúum þegar afgreiða átti tillöguna í auglýsingu. Það er óásættanlegt að reynt sé að hraða í gegn svona skipulagsákvörðunum með því að halda upplýsingum um málið frá kjörnum fulltrúum.“
Marta segir að hér sé um róttæka skipulagsbreytingu að ræða þar sem svæðið hefur hingað til verið skilgreint fyrir menningarstarfsemi og fræðslustarfsemi í tengslum við Háskóla Íslands.
„Þessi breytta landnotkun er ekki í samræmi við aðalskipulag og vekur spurningar hvort þetta kalli á aðalskipulagsbreytingu sem þyrfti að vera undanfari auglýsingar á deiliskipulagi. Deiliskipulagstillagan felur í sér að þjónustulóð verður að íbúðalóð og byggingarmagn aukið. Lóðarhafa er heimilt að koma fyrir 42 íbúðum en aðeins 6 bílastæðum innan lóðar. Gert er ráð fyrir þremur stæðum fyrir hreyfihamlaða, einu stæði fyrir deilibíl og einungis er gert ráð fyrir þremur stæðum til almennra nota fyrir íbúa,“ segir Marta.
Bréf Háskólans til borgarstjóra er undirritað af forstöðumönnum fjögurra stórra stofnana á svæðinu, þ.e. háskólarektor, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, forstöðumanni Landsbókasafns Íslands og framkvæmdastjóra Félagsstofnunar stúdenta. Bréfið var ekki lagt fram í borgarráði.
Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður skipulagsráðs gaf ekki kost á viðtali í gær.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.