Íslandsstofu voru tryggðar 200 milljónir króna til þess að markaðssetja Ísland sem áfangastað ferðamanna árið 2025.
Verkefnið miðar að neytendamarkaðssetningu á völdum mörkuðum erlendis.
Þetta kemur fram í svari Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn Jakobs Frímanns Magnússonar, þingmanns Flokks fólksins.
Hann vildi upplýsingar um hvort ráðherra ætlaði að hefja markaðssókn á lykilmarkaði ferðaþjónustunnar í ljósi samdráttar í atvinnugreininni. „Ef svo er, hvenær og með hvaða hætti?“ spurði þingmaðurinn.
Í svarinu kemur fram að í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2024, sé aðgerð um markvissa og viðvarandi markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna.
„Markmið þess er að viðhalda og koma á framfæri ímynd og orðspori Íslands sem leiðandi í sjálfbærri þróun, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar, viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og miðla réttum upplýsingum um stöðu mála ef upp koma náttúruhamfarir eða önnur áföll,“ segir m.a. í svarinu.
„Íslandsstofa hefur umsjón með framkvæmd verkefnisins og ber ábyrgð á framvindu þess og að unnið sé í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið fram.“