„Staða PCC BakkaSilicon er grafalvarleg og dregur fram þá staðreynd að það má aldrei sofna á verðinum þegar kemur að samkeppnishæfni Íslands. Heimshagkerfið er í uppnámi um þessar mundir, meðal annars vegna aukinna viðskiptahindrana – aukinna tolla – en einnig vegna þess að ríki keppast við að tryggja aðgang að hrávörum og tækni.“
Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið. Fyrirtækið á í miklum rekstrarerfiðleikum og er rekstrarstöðvun í kortunum.
Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar, segir stöðuna grafalvarlega og kveðst treysta því að stjórnvöld sinni málinu og komi í veg fyrir að hópuppsagnir verði í maí.
„Þetta er mjög þýðingarmikið fyrirtæki. Við sjáum ekki hærri laun á svæðinu en hjá þessu fyrirtæki. Þarna eru bestu launin þannig að þetta er mjög góður vinnustaður. Við sjáum ekki önnur eins kjör hjá öðrum fyrirtækjum,“ segir hann.
Sigurður segir að íslensk stjórnvöld eigi að setja í algjöran forgang að efla samkeppnishæfni Íslands
en samkeppnishæfni sé nokkurs konar heimsmeistaramót ríkja í lífsgæðum.
„Það er skýrt ákall frá iðnaðinum hér á landi um iðnaðarstefnu, nánar tiltekið um heildstæða stefnumörkun sem tekur til orkumála, starfsumhverfis, þ.e. skatta, gjalda og regluverks, menntamála, innviðauppbyggingar og umgjarðar nýsköpunar til þess að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun,“ segir hann.
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, segir að lokun verksmiðjunnar yrði þungt högg fyrir samfélagið.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.