„Ég horfi þetta mál auðvitað gífurlega alvarlegum augum og það skiptir máli að það sé farið vel yfir þetta mál. Ég veit að dómsmálaráðherra er mér sammála hvað það varðar,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra um hið svokallaða PPP-mál sem varðar umfangsmikinn gagnaþjófnað úr kerfum sérstaks saksóknara.
Greint var frá málinu í Kveik á þriðjudag en þjófnaðurinn úr kerfunum átti sér stað fyrir rúmum áratug.
Ríkissaksóknari hefur falið lögreglunni á Suðurlandi að rannsaka málið.
„Við eigum auðvitað ekki að sætta okkur við, yfirhöfuð, svona meðferð upplýsinga og þetta verður skoðað til hins fyllsta,“ segir Kristrún.