This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Talsverðar leysingar hafa verið í Goðafossi í Skjálfandafljóti í Bárðardal en fossinn er afar fjölsóttur ferðamannastaður.
Vilhjálmur Grímsson, bóndi á Rauðá sem er ofan við Fosshól sem er við Goðafoss, segir í samtali við mbl.is að leysingarnar núna séu ekkert óeðlilegar en hann á helming af landi að Goðafossi austanmegin.
„Þær eru samt svolítið miklar miðað við að hér er gjörsamlega snjólaust og það eru bara smá skaflar í efstu fjöllum í Bárðardal en mikil úrkoma hefur skapað þessar leysingar,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að fossinn hafi verið mjög vatnsmikill í fyrradag í miklum leysingum en dregið hafi úr þeim.
„Maður er búinn að horfa á fossinn í rúm 50 ár. Maður sér breytingar á honum í svona aðstæðum en maður kippir sér ekkert upp við það,“ segir hann.
Spurður hvort það sé mikill ferðamannastraumur að fossinum segir hann:
„Á bestu dögum eru að fara þarna um tvö til þrjú þúsund manns og þegar skemmtiferðaskipin koma til Akureyrar flykkjast ferðamenn að Goðafossi,“ segir hann.