Tilkynnt var í dag um tilnefningar til Jafnréttisverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur, en þau eru sameiginlegt framtak íslenskra stjórnvalda og þings Evrópuráðsins.
Verðlaununum eru ætlað að verðlauna einstaklinga eða samtök sem stuðla að eða styðja á framúrskarandi hátt við valdeflingu kvenna.
Valnefnd hefur nú tilkynnt um þær þrjár tilnefningar sem eru í lokavali verðlaunanna þetta árið. Alls bárust nefndinni 111 tilnefningar víðsvegar að úr heiminum en verðlaunin eru veitt í annað skipti þetta árið. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Þrír hljóta tilnefningu til verðlaunanna þetta árið en það eru The Green Girls Organisation frá Kamerún, Gisèle Pelicot frá Frakklandi og Women of the sun frá Palestínu.
The Green Girls Organisation eru samtök stofnuð af Monique Ntumngia sem veitt hafa yfir 12.000 kvenna og stúlkna þjálfun í sólarorkutækni, gervigreindardrifnum loftslagslausnum og grænu frumkvöðlastarfi.
Einnig tengja samtökin konur við atvinnulífið með fjármagni og tengslum og berjast fyrir kynjajafnrétti í loftslagsstefnum.
Gisèle Pelicot var á níu ára tímabili, frá árunum 2011 til 2020, ítrekað byrluð lyf og nauðgað af eiginmanni sínum. Eiginmaður hennar bauð einnig tugum karla að brjóta á henni á meðan hún var meðvitundarlaus.
Gisèle krafðist þess sjálf að réttarhöldin yfir eiginmanninum væru opin almenning og fjölmiðlum sem viðurkenningu á sögu hennar. Þetta hefur gert hana að tákni hugrekkis og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og hefur ákvörðun hennar um að halda réttarhöldunum opnum breytt löggjöf í Frakklandi um skilgreiningu á nauðgun, ásamt því að vekja athygli um allan heim á lyfjanauðgunum.
Women of the sun eru sjálfstæð palestínsk samtök stofnuð af Reem Hajajreh. Samtökin skapa tækifæri fyrir palestínskar konur að komast inn í karllæg svið eins og stjórnmál, viðskipti og tækni.
Ásamt því hafa samtökin leitt saman palestínskar og ísraelskar konur til að stuðla að og efla samræður og skilning þeirra á milli í von um að brjóta niður múra og fordóma þeirra á milli.
Verðlaunahafi ársins 2025 verður kynntur við formlega athöfn á setningu þings Evrópuráðsins í Strassborg þann 23.júní.
Íslensk stjórnvöld greiða 60.000 evrur í vinning ásamt viðurkenningarskjali og verðlaunagrip sem að þessu sinni er listaverkið „Kvika" eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur sem unnið er úr íslensku hrauni og gleri.
Fyrstu Jafnréttisverðlaun Vigdísar voru veitt árið 2024 til Irida Women´s Center í Grikklandi. Það er grasrótarhreyfing sem vinnur að jákvæðum breytingum kvenna sem lifa við fátækt, félagslega einangrun eða kynbundið ofbeldi.
Nánari upplýsingar um verðlaunin má finna á vef þeirra.