„Hleranir sem mjög óskýrt var hvaða tilgangi þjónuðu, voru geymdar með mjög frjálslegum hætti, sættu engu eftirliti og fóru svo á flakk í meðförum einhverra manna sem ákváðu að fara að selja sig og sitt siðleysi hæstbjóðanda,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður og meðeigandi á lögmannsstofunni Rétti um stuld á gögnum hjá embætti sérstaks saksóknara.
Enn fremur bendir Oddur á það að Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hafi haft orð á því árið 2011 að embættið gæti ekki sinnt eftirliti með hlerunum. Í því fólst meðal annars eftirlit með eyðingu gagna.
Eins og fram hefur komið tóku Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, þá lögreglumenn hjá embætti sérstaks saksóknara, hlerunar- og rannsóknargögn ófrjálsri hendi. Notuðu þeir gögnin til að selja þjónustu sína í ráðgjafafyrirtækinu PPP.
Oddur skrifaði árið 2015 lokaritgerð í lögfræði um hleranir, m.a. í tengslum við fall gömlu bankanna árið 2008. Hefur hann fylgt málefninu eftir af áhuga síðan þá.
Hann segir frásagnir af stuldi lögreglumannanna á gögnum öðrum þræði endurspegla að tilgangurinn hafi helgað meðalið þegar kom að því að rannsaka ætluð brot bankamanna.
„Mér finnst blasa við þegar nú berast fréttir af því að gögnum úr hlerunum var stolið af embætti sérstaks saksóknara að þar létu menn kappið bera fegurðina ofurliði og gengu fram með gassagangi á kostnað mannréttinda sakborninga,“ segir Oddur.
„Hleranirnar þjónuðu engum tilgangi og mér er ekki kunnugt um að þær hafi gagnast við neitt af þeim sakamálum sem voru í gangi eftir hrun,“ segir Oddur og bendir á að flestar hleranirnar hefðu verið framkvæmdar mörgum árum eftir meint brot. Vanalega séu hleranir notaðar til að komast á snoðir um brot sem til stendur að fremja.
Hann segir að engar skráðar reglur hafi verið um meðferð símtala sem tekin voru upp í hlerunum. Fram kom í máli Ólafs Þórs Haukssonar, núverandi héraðssaksóknara og fyrrverandi sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is í gær að starfsfólk hafi haft aðgengi að þeim eftir hentisemi án þess að eftirlit væri með því.
„Það breytir því ekki að lögregla hefði þurft að gæta að því að þessi gögn færu aldrei til óviðkomandi og aldrei á flakk,“ segir Oddur.
„Sérstakur saksóknari framkvæmdi hlerunina en ríkissaksóknari átti að hafa eftirlit með lögmæti þeirra. En hvort tveggja var í lamasessi. Ríkissaksóknari átti að sjá til þess að gögnum yrði eytt og að framkvæmd þeirra væri í lagi,“ segir Oddur.
Eftirlitið átti að vera í höndum ríkissaksóknara. Í því samhengi er vert að nefna að árið 2011 ritaði Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, grein í tímariti félags lögfræðinga undir yfirskriftinni Ákæruvald á krossgötum þar sem hún segir frá því að embættið hafi ekki tök á því að sinna því lögbundna eftirliti. Bar hún við fjárskorti og manneklu í greininni.