Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari telur sem stendur ekki ástæðu til afsagnar vegna umfangsmikils gagnastuldar frá embætti sérstaks saksóknara meðan það embætti var og hét og hann gegndi því. Hann fullyrðir að rannsóknaraðferðir og gagnaöflun hafi alltaf verið innan lagaheimilda og dómsúrskurða hafi verið aflað fyrir öllum hlerunum.
„Það er ekki hægt að fá hlustun framkvæmda nema þú sért með dómsúrskurð. Þetta fer á milli stofnana og þar er skýlaus krafa um dómsúrskurð og það er aldrei sett í framkvæmd hlustun nema dómsúrskurður liggi fyrir,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari fól í gær lögreglustjóranum á Suðurlandi rannsókn á brotum vegna gagnastuldarins eftir að efast var um hæfi hennar til að fjalla um málið.
Um er að ræða gögn sem þeir Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, áður starfsmenn sérstaks saksóknara, tóku ófrjálsri hendi og nýttu meðal annars til að selja þjónustu ráðgjafarfyrirtækis síns PPP, líkt og upplýst var í Kveik á Rúv.
Þeir voru kærðir fyrir brot á trúnaðarskyldu hjá embættinu árið 2012 vega gruns um stuld á gögnum um Milestone, en ríkissaksóknari felldi þá rannsókn niður og brást ekki við öðrum ábendingum og kærum um ólögmætar hlustanir í fórum embættisins.
Þá hefur eftirlitsnefnd með störfum lögreglu boðað rannsókn og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun einnig fjalla um málið. Ólafur segist vilja bíða og sjá hvað kemur út úr því.
„Þetta er afstaða mín eins og hún er í dag, komin eru viðbrögð við þessum fréttaflutningi og rannsókn. Það kemur síðan einhver niðurstaða úr því.“
Ólafur segir þá Jón Óttar og Guðmund hafa haft víðtækan aðgang að gögnum þegar þeir störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara, enda hafi þeir komið að málum er vörðuðu hlustanir. Hvort þeir hafi haft aðgang að öllum upptökum embættisins getur Ólafur ekki sagt til um.
Fram hefur komið að almennur grunur hafi verið uppi meðal fyrrverandi yfirmanna og samstarfsmanna um að tvímenningarnir hefðu hirt mun fleiri gögn en þeir voru kærðir fyrir.
Fram hefur komið að meðal gagnanna séu upptökur og uppskriftir af símhlerunum sem í einhverjum tilfellum vörðuðu persónuleg og viðkvæm mál sem tengdust ekki á neinn hátt rannsókn mála hjá sérstökum saksóknara. Gögn sem skylt var að eyða.
Spurður hvort hann hafi haft einhverjar áhyggjur af því, þegar rannsókn hófst á gagnastuldinum árið 2012, að embættið hefði í fórum sínum gögn langt umfram heimildir, svarar Ólafur því neitandi.
„Rannsókn þessara mála sem þessar upptökur varða var ekki lokið.“
En var ekki ljóst á upptökunum að þetta væru samtöl þess eðlis að þau hefðu ekkert vægi fyrir rannsóknina?
„Ef þú lest lagaákvæðið eins og það stendur í dag þá á að geyma allar upptökur þar til málinu er lokið.“
Spurður hvort það hafi líka átt við þær upptökur, sem ekkert vægi hafi haft fyrir rannsókn mála, segir hann það væntanlega verða skoðað nú.
Hann tekur fram að það sé skýr lagaskylda að eyða símtölum við verjendur og reynt hafi verið að gæta þess. Misbrestur hafi þó verið á því í einhverjum tilfellum.
Þá sé langt síðan öllum þessum upptökum sem um ræðir hafi verið eytt.
Ólafur segir málið fyrst og fremst snúast um að menn hafi ætlað að brjóta af sér og gera eitthvað sem þeir áttu ekki að gera, frekar en að misbrestur hafi orðið á starfsháttum embættisins.
„Það er verið að taka og afrita gögn sem menn eiga ekki að taka og afrita og taka með út úr húsi. Þetta eru gögn sem var á hreinu að menn máttu alls ekki afrita með þessum hætti sem þarna er gert og hafa með sér út.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.