Lögfræðingurinn Brynjólfur Sveinn Ívarsson segir það virðast sem daglegt brauð að svindlað sé á ferðamönnum hér á landi.
Nýlega hafi leigubílstjóri haft rúmar 27.000 krónur af tveimur áströlskum konum fyrir ferð sem skilaði þeim einungis á mannlausan stað í hrauni Hafnarfjarðar.
Brynjólfur segir að skjólstæðingar sínir hafi ætlað að taka leigubíl frá miðbæ Reykjavíkur í norðurljósaferð sem átti að hefjast við Bláfjallaveg. Leigubílstjórinn, sem sé af sómölskum upprunar, hafi þóst starfa fyrir Hreyfil og gefið upp að áætlað verð væri um 7.000 krónur.
„Leigubílstjórinn keyrði hinsvegar skjólstæðinga mína, sem eru tvær ástralskar konur, upp á skíðasvæðið í Bláfjöllum, síðan keyrði hann þær á réttan áfangastað en þá höfðu þær auðvitað misst af norðurljósaferðinni og enduðu þá á mannlausum stað út í hrauni í Hafnarfirði. Til þess eins að neyðast til þess að taka leigubifreið til baka. Fyrir þessa afbragðsþjónustu voru þær rukkaðar um 27.500 kr,“ skrifar hann á Facebook.
Þá segir hann ekki hlaupið að því að ferðamenn leiti réttar síns eftir svona svindl hér á landi.
„Það versta er að þetta virðist vera daglegt brauð og ekkert ber á snemmtækri íhlutun jafnvel þó að menn beinlínis gera út á að svindla á ferðamönnum.“
Í samtali við mbl.is segir Brynjólfur málið hafa komið upp í lok mars. Það hafi komið á hans borð eftir að honum var bent á það af öðrum leigubílstjórum.
„Þeir eru mjög ósáttir af því það eru svo margir sem eru að koma og svindla hægri vinstri, gera bara út á það að svindla, og það hefur ekki haft neinar afleiðingar hingað til.“
Hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem að hann taki að sér mál af þessum toga. Hann viti þó til þess að margir séu farnir að kvarta yfir leigubílaferðum sem séu allt í einu orðnar rosalega dýrar.
Þá segir hann það erfitt fyrir ferðamenn að vita hvað þeir eigi að gera og hvert eigi að leita þegar þeir lenda í atvikum sem þessum. Hægt væri að leggja fram kæru til lögreglunnar en það tæki hins vegar langan tíma þar sem mál af þessum toga eru ekki í forgangi.
Brynjólfur segir að konurnar tvær hafi tekið niður bílnúmer leigubílstjórans og verið með góða lýsingu á honum. Þannig hafi verið komist að því að hann hafi ekki starfað hjá Hreyfli. Þvert á móti sé hann ekki skráður á neina stöð heldur einungis skráður með leigubíl sem hann rekur.
Aðspurður segist Brynjólfur nú geta leitað til úrskurðanefndar vöru- og þjónustukaupa vegna málsins en einnig til lögreglunnar.
„Af því þetta eru náttúrulega fjársvik. Það má mjög auðveldlega halda því fram, af því að ásetningurinn virðist hafa verið að fara með þær í einhverjar þvæluferðir og rukka þær síðan svona rosalega mikið.“
Hann segir þó ekki mikið að hafa upp úr málum sem þessum. Hagsmunir séu ekki þannig að það borgi sig að ráða lögmann í svona málum.
Þá mun hann ekki rukka ferðamennina sjálfa heldur taka prósentu af þeirri greiðslu sem næst eða þá fá greiddan dæmdan málskostnað. Hann segir það þó ekki skynsamlegt að leita til dómstóla í málum sem þessum.
Um leigubílstjórann sjálfan segir Brynjólfur það vera erfitt fyrir Samgöngustofu að bregðast við með afgerandi hætti þar sem leigubílstjórar þurfi í raun að verða sakfelldir fyrir afbrot svo eitthvað sé gert.
„En maður skrifar auðvitað Samgöngustofu og lætur vita.“
„Ég myndi sjálfur heimfæra þetta undir fjársvik. Leigubílstjórar á Íslandi eiga alveg að vita hvar norðurljósaferðirnar eru,“ segir lögmaðurinn að lokum.