Eigendur húss við Fjólugötu í Reykjavík hafa fengið synjun við þeirri ósk að fá að útbúa bílastæði á lóð sinni.
Skipulagsfulltrúi borgarinnar hafði tekið neikvætt í erindið og skaut húseigandinn þeirri ákvörðun til umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
Á fundi ráðsins 30. apríl sl. var niðurstaða skipulagsfulltrúa staðfest með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalista og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og einu atkvæði Framsóknarflokksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins töldu í bókun rétt að heimila viðkomandi húseigendum að leggja bifreiðastæði á lóð sinni, líkt og fjölmörg fordæmi eru fyrir í götunni og öðrum nærliggjandi götum.
Fulltrúi Framsóknarflokksins benti á í bókun að afgreiðsla ráðsins á málskotinu skorti rökstuðning. Tæplega væri hægt að vísa í venjur um að banna gerð bílastæða inni á einkalóð út frá þeim rökum að bílar þyrftu að aka yfir gangstéttir til komast í eða úr stæðum. Það fyrirkomulag að bílar ækju í og úr stæðum yfir skilgreindar gangstéttir fyrirfyndist um alla borg. Það virkaði handahófskennt að hafna beiðni íbúanna á Fjólugötu út frá þeim rökum.
Fram kemur í gögnum sem húseigendur sendu inn að umrætt hús sé það elsta við götuna og það eina sem ekki er með bílastæði. Fjólugata liggur milli Skothúsvegar og Njarðargötu, skammt frá Tjörninni.
Í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa vegna málsins kemur fram að í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé fjallað um hverfisvernd innan Hringbrautar.
Þar komi fram eftirfarandi. „Ekki skal raska hinu sögulega gatnaskipulagi, skipan byggingarreita og opinna rýma né lóðaskipan. Ef breyta á grunnmynstri byggðarinnar og sögulegu skipulagi skal færa fyrir því sterk rök í tillögu að deiliskipulagi og/eða hverfisskipulagi og gera grein fyrir því hvernig það samræmist markmiðum borgarverndarstefnu og með hvaða hætti ný byggð bætir þá byggð sem fyrir er.“
Verkefnastjórinn segir að ný stæði á lóðinni krefðust þess að nýjar innkeyrslur yrðu gerðar frá götu. „Almennt er ekki tekið jákvætt í að gera ný bílastæði á lóð í gróinni byggð þar sem reynt er eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að keyrt sé yfir gangstétt til að tryggja umferðaröryggi. Einnig yrði við gerð bílastæðisins að fjarlægja gróður sem er áberandi hluti af götumyndinni og yfirbragði byggðarinnar,“ segir í umsögninni.
Loks segir verkefnastjórinn að þó nokkur dæmi séu um innkeyrslur og bílastæði á lóð eins og fyrirspyrjandi nefnir í bréfi sínu. Í einhverjum tilfellum getur verið um óleyfisframkvæmdir að ræða.
„Í öðrum tilfellum hafa verið samþykkt bílastæði á lóð. Innkeyrslur af þessum toga eru þó ekki taldar fordæmisgefandi fyrir því að heimila bílastæði með tilheyrandi raski á gangstétt við Fjólugötu,“ segir verkefnastjórinn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.